Fjölmörg tækifæri í eflingu frumkvöðlamenntar

09. október 2013

„Skólastjórnendur íslenskra framhaldsskóla sjá margvísleg tækifæri felast í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt til að efla ýmsa þætti í námsframboði skólanna og mikill áhugi er meðal þeirra á þátttöku í þróunarstarfi um að innleiða og efla námssviðið. Ný aðalnámskrá skapar sömuleiðis svigrúm til að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og áherslur hennar passa vel við áherslur og kennslufræði námssviðsins. Sá rammi, áherslur og nálgun, sem nýsköpunar- og frumkvöðlamennt býður upp á, getur hjálpað mörgum framhaldsskólum við að móta það nám, sem talið er mikilvægt í nútíma menntun þar sem uppbygging þekkingar fer saman við eflingu hæfni nemenda til sköpunar, nýsköpunar og aðgerða í krafti eigin frumkvæðis og framtakssemi,“ sagði dr. Svanborg R. Jónsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, í erindi sem hún flutti á ráðstefnunni Menntaviku MVS nýverið.

Tæknimenntun

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í íslenskum framhaldsskólum og tækifæri NFM í nýrri námskrá var meðal umfjöllunarefna á Menntavikunni, en í sömu málstofu fluttu erindi þau Meyvant Þórólfsson, lektor, Gunnar E. Finnbogason, prófessor, og Jóhanna Karlsdóttir, lektor. Umfjöllunarefni fyrirlesara tengdust öll rannsókn, sem unnin var á vegum samstarfsverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um eflingu NFM á framhaldsskólastigi. Spurningakönnun um sýn stjórnenda framhaldsskóla á stöðu NFM á Íslandi var send út til 34 stjórnenda framhaldsskóla haustið 2012. Svör bárust frá 32 skólum og reyndist svarhlutfall því 93,9%. Á grundvelli svara skólastjórnenda vann Svanborg skýrslu um málaflokkinn undir yfirskriftinni: „Staða nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar á framhaldsskólastigi á Íslandi og mat á þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir fólk með slíka menntun.“

Stjórnendur vel með á nótunum

Könnunin sýnir að stjórnendur eru flestir vel með á nótunum um hvað nýsköpunar- og frumkvöðlamennt snýst og þeir sjá þar ýmis tækifæri til að efla nemendur sem einstaklinga og tengsl þeirra við atvinnulíf og samfélag. Enn fremur skapar ný aðalnámskrá framhaldsskóla gott rými og tækifæri til að breyta námsframboði og bjóða upp á nám, sem hentar hverjum skóla og hverju samfélagi og fellur að þeirri grunnhugsun sem menntastefnan frá 2011 boðar. Alls 30 af 32 stjórnendum telja að þörf sé á menntun kennaranema og endurmenntun starfandi kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og sami fjöldi lýsti áhuga sínum á að taka þátt í þróunarverkefni um að efla námssviðið. Flestir vilja að endurmenntun starfandi kennara fari fram í viðkomandi skóla eða svæði og gjarnan í samstarfi fleiri skóla og að teymi eða allir kennarar skólans taki þátt í slíkum námskeiðum. 

Allnokkrir skólar eru farnir af stað í þróunarvinnu á þessu sviði og margir stjórnendur eru með fjölbreyttar hugmyndir um hvernig mætti hagnýta nám í NFM á mismunandi hátt og tengja t.d. listgreinum, atvinnulífi eða sérstöðu skóla.

Nýsköpunarnám skyldufag í tveimur skólum

Samkvæmt svörum frá stjórnendum framhaldsskólanna býður um þriðjungur skólanna ekki upp á formlegt nám í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og einn skóli var, þegar könnunin var framkvæmd, með slíkt námskeið sem skyldunámskeið fyrir alla nemendur skólans, en það er Menntaskólinn á Tröllaskaga. Síðan hefur Verslunarskóli Íslands bæst við sem gerir námskeið í NFM sem skyldu fyrir alla nemendur. Nokkuð er um að NFM sé í boði sem valnámskeið fyrir alla nemendur skóla eða í 43,8% þeirra sem svöruðu. Svörin sýna að formleg kennsla í NFM er lítill hluti af menntun nemenda í íslenskum framhaldsskólum. Þar með er þó ekki sagt að framhaldsskólanemar fái ekki tækifæri til að efla skapandi færni og framtakssemi.

Stjórnendur framhaldsskóla eru almennt opnir fyrir því að efla NFM og hafa góðan skilning á því í hverju slík menntun felst:

  • Að tileinka sér nýjungar í hugsunarhætti og vinnuvenjum
  • Að efla sköpun og færni til framkvæmda
  • Að tengja skólastarf við atvinnulíf
  • Að skapa sérstakt námstækifæri eða svið í menntun


Samfélagið krefst skapandi hugsunar og færni

Svör stjórnenda endurspegla þá námskrársýn, sem tilheyra sjónarmiðum um félagslega skilvirkni þó svo að nýja aðalnámskráin frá 2011 sé sjáanlega mótuð af áhrifum hugsjóna um breytingar á þjóðfélaginu, segir Svanborg. Í svörum stjórnenda má líka greina námskrársýn með áherslu á námsgreinar og að nokkru áherslu á nemendamiðaða sýn, en minnst greinileg eru áhrif sýnar um breytingar á þjóðfélaginu.  Atvinnulífsréttlæting er sterkur tónn í svörum stjórnendanna og flestir tala um að skapandi hugsun og færni sé nauðsynleg hæfni í nútíma samfélagi.

„Sumir nemendur eru helst til fastir í að læra „réttu svörin“ og gera eins og þeir halda að eigi að gera, en of fáir þora að virkja eigið hugmyndaflug og ímyndunarafl. Mér þykir trúlegt að aukin áhersla á frumkvöðlamennt geti virkjað gáfur, sem búa með nemendum, en fá of lítið að njóta sín í skólastarfinu,“ segir einn stjórnenda framhaldsskólanna. Nokkrir stjórnendur sjá þann möguleika í NFM að gera nemendur færa um að hafa áhrif á eigin framtíð. Má í þeim viðhorfum skynja vott um námskrársýn, sem metur gildi þess að nemendur hafi áhrif til breytinga í eigin samfélagi.

Alls 28 stjórnendur svöruðu opinni spurningu um hvaða sérstöðu þeirra skólar vildu leggja áherslu á í námssviðinu NFM og/eða hvaða atvinnugrein þeir myndu vilja tengjast í nærumhverfinu. Talsverðrar fjölbreytni gætti í hugmyndum stjórnendanna um það hvaða áherslur væru æskilegar, hvaða atvinnugreinum NFM gæti tengst og sumir skólanna myndu vilja byggja á þeim grunni, sem þegar er til staðar. „Þar sem víð skilgreining er eitt af einkennum nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar, má búast við að tækifærin og útfærslurnar séu margar og eðlilegt að þær taki mið af aðstæðum og sérstöðu skólanna.

Gott fyrir bæði samfélag og atvinnulíf

„Niðurstöður skýrslunnar sýna að mikil þörf er á því að efla skapandi hæfni og getu til að framkvæma nýjar hugmyndir og lausnir, hvort heldur fyrir samfélag eða það atvinnulíf, sem hvert samfélag byggir tilveru sína á. Atvinnulífið kallar eftir samstarfi við skólakerfið og flestir viðurkenna þörfina fyrir aukna nýsköpun, græna nýsköpun og færni til að bregðast við breytingum. Samstarf við nærsamfélag og atvinnulíf er einn af áhersluþáttum NFM og má því sjá þar tækifæri til að efla tengsl skóla og atvinnulífs. Þörf atvinnulífsins fyrir fólk með verk- og tæknimenntun er enn fremur einn af þeim þáttum, sem efla mætti með nýsköpunar- og frumkvöðlamenntun og byggði á tæknilæsi og sköpunarfærni á sviði tækni og vísinda. Skilaboð atvinnulífsins, sem greind voru í atvinnuauglýsingum, sýna að þar er þörf fyrir fólk með hæfni og færni sem leitast er við að efla með nýsköpunar- og frumkvöðlamennt þó ekki hafi þau skilaboð verið mest áberandi,“ segir Svanborg að lokum.

Hægt er að nálgast umrædda skýrslu hér