Fjárfest í orkutengdum sprotum

14. janúar 2014

Viðskiptasmiðjan Startup Energy Reykjavik fjármagnar og styður við verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. Opnað verður fyrir umsóknir í viðskiptasmiðjuna fimmtudaginn 16. janúar. Af því tilefni verður haldinn opinn kynningarfundur um verkefnið sama dag. 

Start Up Energy Reykjavík

Tíu vikna þjálfun

Startup Energy Reykjavik stendur yfir frá 10. mars til 30. maí og verða 7 teymi valin til þátttöku sem hvert um sig mun vinna að sinni viðskiptahugmynd þar sem þeim verður lagt til 5 milljónir í hlutafé gegn hlutdeild í fyrirtækinu. Þá fá teymin 10 vikna þjálfun frá sérfræðingum víðs vegar úr atvinnulífinu og háskólaumhverfinu og glæsilega aðstöðu í Háskólanum í Reykjavík. Landsvirkjun, Arion banki, klasasamstarfið GEORG og Nýsköpunarmiðstöð Íslands koma að fjármögnun verkefnisins en framkvæmd þess er í höndum Iceland Geothermal og Klak Innovit.

Fyrirtæki á öllum stigum virðiskeðjunnar

Leitað er eftir umsóknum á sviði viðhaldsþjónustu, sérfræðiþjónustu, véla, búnaðar og hugbúnaðar í orkutengdum iðnaði og tengdum greinum. Fyrirtæki á öllum stigum virðiskeðjunnar (framleiðsla, orkubreyting, dreifing, smásala) eiga erindi í Startup Energy Reykjavik. 

Næstkomandi fimmtudag, 16. janúar fer fram kynningarfundur um Startup Energy Reykjavik þar sem verkefnið verður kynnt. Fundurinn hefst klukkan 12:00 og er staðsettur í höfuðstöðvum Arion banka.

Allir áhugasamir um verkefnið eru hvattir til að mæta á fundinn!