Heimsmarkaðssetning "Kids Sound Lab" í farvatninu

10. janúar 2014

“Það borgar sig að hafa góða samstarfsaðila því um fjórtán hundruð manns stóðu í röð við sýningabásinn okkar til að freista gæfunnar og vinna Íslandsferð með viðkomu í Bláa lóninu,” segir Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, sem er nýkomin heim af alþjóðlegri ráðstefnu heyrnar- og talmeinafræðinga alls staðar að úr heiminum undir merkjum ASHA, American Speech-Language-Hearing Association. Ráðstefnuna, sem haldin var í Chicago í Bandaríkjunum seinnihluta nóvember 2013, sóttu að þessu sinni um fjórtán þúsund gestir. Samstarfsaðilar Bryndísar á ráðstefnunni voru Icelandair og Bláa lónið og hreppti einn heppinn gestur ráðstefnunnar stóra vinninginn.  Á ráðstefnunni kynnti Bryndís útgáfu á enska smáforritinu “Kids Sound Lab”, sem byggir á íslensku hugviti þar sem málhljóðin eru kennd í sömu röð og enskumælandi börn tileinka sér hljóðin í máltökunni. Til markaðsaðgerðanna fékk Bryndís styrk frá Átaki til atvinnusköpunar.

Raddlist

Framburður kenndur skref fyrir skref

Grunnur smáforritsins “Kids Sound Lab” kemur frá vörulínu, sem Bryndís hefur framleitt undir merkjum “Lærum og leikum með hljóðin”. Hugmyndin þróaðist út frá íslensku málumhverfi og byggði á reynslu af talþjálfun íslenskra barna og rannsóknum á hljóðþróun þeirra. Að sögn Bryndísar lá nýnæmi verkefnisins á Íslandi í upphafi ekki síst í því að talsverð þekking er til í skólum hvað varðar örvun málþroska, en varðandi framburð og hljóðkerfi hefur gætt mikils óöryggis hjá kennrum og foreldrum. „Lærum og leikum með hljóðin og Kids Sound Lab er því sett upp á aðgengilegan hátt fyrir þá, sem ekki hafa grunn á þessu sviði. Í bæði íslenska og enska smáforritinu er framburður kenndur skref fyrir skref með viðurkenndri og gagnreyndri aðferð. Hægt er að skrá nemanda og fylgjast með framförum hans. Hægt er að senda upplýsingar um árangur í netpósti og prenta út gögn. Skráningarmöguleiki og árangursmæling er jafnframt  mikilvæg fyrir þennan hóp, að sögn Bryndísar. 

Risastór markaður og hörð samkeppni

„Kids Sound Lab“ smáforritið mun sækja á markað þar sem eyða er í aðgengilegu efni fyrir forelda og fagfólk sem ekki hefur reynslu af því að vinna með framburð og hljóðkerfi, rétt eins og á Íslandi.  „Til er mikið af hefðbundnu stafrófsefni í Bandaríkjunum, en grunnhugmyndafræði kennsluefnisins vinnur með þroska barnsins á annan hátt. Talsvert er til af hefðbundnu erlendu barnaefni á ensku sem gengur út frá stafrófinu og uppröðun þess. Nýnæmi er að miðað sé við sömu röð og ensk börn tileinka sér málhljóðin í máltökunni. Þá gefur smáforritið alveg nýja nálgun í þjálfun í leik með hljóð. Kids Sound Lab leiðbeinir á mjög einfaldan og aðgengilegan hátt um hljóðmyndun svo allir geta nýtt sér það, ekki eingöngu fagfólk. Táknmyndir fyrir hvert og eitt hljóð eru mjög grípandi og efnið er einstakt í sinni röð,“ segir Bryndís. Þau 35 framburðarforrit, sem nú eru á markaði, byggja ekki á tileinkunarröð hljóðanna og kenna ekki um grunnhljóðmyndun málhljóðanna með talfæralýsingum eða æfa hljóðið í hljóðakeðjum til að undirbúa rétta orðmyndun. Smáforritaútgáfa er nýnæmi í hljóðakennslu og samkvæmt Apple-samantekt frá júní 2013 eru nú  til um 375 þúsund  smáforrit fyrir iPad.  Þar af eru eingöngu um 35 þeirra í enskum og spænskum framburði sérstaklega, en mun fleiri smáforrit kenna stafrófið. Ekki er því um marga samkeppnisaðila að ræða á enskumælandi markaði á sérhæfðu efni fyrir börn, en um 50 billjón smáforrita er hlaðið niður daglega í iPad tæki. Helsta samkeppni er kannski fólgin í því að ná í gegn til markhópsins umfram aðra, sem eru með leiki fyrir börn og/eða framburðar- og stafrófsefni fyrir börn. En erfiðasti hjallinn er að verða sýnilegur í heimi 375 þúsund smáforrita, segir Bryndís og bætir við að markaðsátak Raddlistar ehf., sem er sprotafyrirtæki Bryndísar, muni beinast að því að ná til fagfólksins um allan heim sem vinnur með börn með frávik og veitir foreldrum ráðgjöf sem hafa áhyggjur af tali barna sinna.

Þátttakan skilaði sér í samstarfi um heimsmarkaðssetningu

Íslenska smáforritið hefur verið með söluhæstu forritum í íslensku Apple-búðinni frá því að það kom á markað þann 20. ágúst 2013 og þar eru bæði skólar og fjölskyldur kaupendur.

Bryndís er bjartsýn á framtíðarhorfur miðað við þær viðtökur, sem nýja „appið“ hefur fengið og gera megi ráð fyrir að umfang Raddlistar ehf. í Reykjanesbæ muni aukast með vaxandi verkefnum, sem komi til með að kalla á fjölgun starfsmanna og aukna veltu. „Fyrsta skrefið í alvöru markaðsátaki á „Kids Sound Lab“ var þátttaka í Chicago-ráðstefnunni og þar fengum við frábærar móttökur þrátt fyrir að fjölmörg smáforrit séu gefin út á degi hverjum. Ég náði allaveganna góðri athygli innan þessa takmarkaða hóps heyrnar- og talmeinafræðinga, sem eru bæði að vinna með sína skjólstæðinga og sem ráðgefandi við foreldra, sem hafa áhyggjur af tali barna sinna. Auk þess sóttu ráðstefnuna aðilar, sem skrifa um forrit og meta gæði forrita. Persónuleg tengsl við slíka aðila skipta miklu máli. Í ársbyrjun 2014 hófst svo samstarf mitt við stórt alþjóðlegt markaðsfyrirtæki, sem sá um markaðshluta ráðstefnunnar, um markaðssetningu Kids Sound Lab á heimsvísu. Markaðsfyrirtækið mun búa til auglýsingar og kynningarefni fyrir mína vöru og markaðssetja á heimsvísu enda hefur fyrirtæki þetta yfir að ráða gagnagrunni hugsanlegra viðskiptavina í heiminum öllum,“ segir Bryndís að lokum.

Sjá nánar á heimasíðunum og fésbókarsíðunum:

 www.laerumogleikum.is og www.kidssoundlab.com

Tengill á erlenda umfjöllun um Kids Sound Lab:

http://www.activitytailor.com/blog/?p=2575