Mikil tækifæri fyrir tæknilausn Hafbors í Bandaríkjunum

10. janúar 2014

„Tækifærin i markaðssetningu á tæknilausninni okkar í Bandaríkjunum eru gríðarleg eftir að Skipulags- og umhverfisstofnun Kaliforníuríkis gaf í vikunni í fyrsta skipti í sögunni grænt ljós á kræklingaeldi utan þriggja mílna fylkislögsögu,“ segir Ingvar Erlingsson, framkvæmdastjóri siglfirska nýsköpunarfyrirtækisins Hafbors ehf.  Fyrirtækið hefur á undanförnum þremur árum unnið að hönnun, þróun og prófunum á búnaði, sem festir skrúfuakkeri í sjávarbotn með nýrri íslenskri tæknilausn. Tæknin gerir það kleift að setja niður öflugar festingar í sjávarbotn án kafara á allt að 100 metra dýpi. Tæknin er í dag miðuð að notkun fyrir kræklingarækt og fiskeldi á miklu dýpi, en nýtist einnig við ýmsar aðrar aðstæður og notkun þar sem festa þarf hluti við sjávarbotn.

Hafbor - tæknilausn

Það er nýtt fyrirtæki í skelfisk- og kræklingarækt í Kaliforníu, Catalina Sea Ranch, sem sótti um leyfi til Skipulags- og umhverfisstofnunar Kaliforníuríkis, California Coastal Commission, um að fá að hefja kræklingaeldi átta sjómílur úti fyrir ströndum Los Angeles með Hafbor ehf. frá Siglufirði sem meðumsækjanda með búnaðinn sinn að undangengnu leyfi frá verkfræðideild bandaríska hersins. Verkfræðideild bandaríska hersins þurfti að samþykkja búnað Hafbors í upphafi umsóknarferilsins.  

Leyfisveitingin skiptir sköpum í markaðssetningu

„Við höfum verið að vinna að þessari umsókn í hálft annað ár með Catalina Sea Ranch og þessi leyfisveiting skiptir sköpum því þetta er í fyrsta sinn sem kræklingarækt er leyfð utan þriggja mílna fylkislögsögu í Bandaríkjunum. Þar með erum við komin yfir í alríkislögsöguna og getum nú starfað hvar sem er í Bandaríkjunum. Það sem skiptir auðvitað mestu varðandi leyfisveitinguna er það hversu umhverfisvænn búnaðurinn okkar er sem kemur til með að setja mælikvarða á það sem koma skal og þá eflaust með fleiri samstarfssamningum við fyrirtæki og framleiðendur vestra.  Ég sé fram á að okkar búnaður verði fyrirmynd í framhaldinu enda hafa bæði akkerið og borinn mjög lítil umhverfisáhrif og hreyfa lítið við sjávarbotni,“ segir Ingvar, sem er á leið vestur um haf á mánudag við annan mann frá Hafbor ehf. til að hefja framkvæmdir.

Fjölmiðlar og rannsakendur ætla að fylgjast með

Í byrjun ætla þeir félagar hjá Hafbor ehf. að vera á austurströnd Bandaríkjanna þar sem fram fer einskonar „generalprufa“, eins og Ingvar orðar það. Þar mun Hafbor setja niður festingar fyrir kræklingarækt við Dutch Harbour á Rhode Island. „Borinn er farinn úr landi og tilbúinn til athafna, en verkefnið þar lýtur einnig að niðursetningu festinga fyrir kræklingarækt, en þó innan þriggja mílna fylkislögsögu. Um mánaðamótin febrúar/mars verður svo haldið til vesturstrandarinnar til að vinna á vegum Catalina Sea Ranch.  „Það verkefni verður ákveðin prófraun og kynning fyrir okkur í leiðinni því margir hafa boðað komu sína til að fylgjast með gangi mála, bæði fjölmiðlar og rannsakendur. Tækifærið verður notað til að sýna búnaðinn og kynna fyrir fleiri aðilum,“ segir Ingvar, sem býst við því að verkefnið taki um tvær vikur. Verkefnið snýst um að setja niður 90 festingar í sjávarbotn á 50 metra dýpi og samningurinn hljóðar upp á 15 milljónir króna.

Mikil tækifæri á Bandaríkjamarkaði

Upphafið að samstarfi Hafbors og Catalina Sea Ranch í Kaliforníu má rekja til bresks ráðgjafa, sem vann að þarfagreiningu fyrir tæknilausn Hafbors á sínum tíma á meðan á þróunarvinnunni stóð vegna umsóknar fyrirtækisins í Tækniþróunarsjóð ásamt fleiri aðilum. „Þessi sami ráðgjafi fór síðan í kjölfarið að vinna að leyfisumsóknum fyrir Catalina Sea Ranch og benti á okkur sem samstarfsaðila,“ segir Ingvar og bætir við að verkefnið sé nú að taka á sig skemmtilega og jákvæða mynd þó allt ferlið sé búið að taka tímann sinn eða um eitt og hálft ár.

„Okkur hlakkar mikið til vesturfarar enda lofa viðtökurnar góður. Við erum afskaplega bjartsýn á Bandaríkjamarkað enda eru þar mikil tækifæri. Vegna þess hversu mikil rannsóknavinna hefur farið fram og vegna þess hversu ströng skilyrði þurfti að uppfylla til að fá leyfið, verðum við hluti af rannsóknateymi og getum nýtt okkur þær rannsóknir, sem fram fara, okkur til framdráttar til lengri tíma litið. Þetta er bara skemmtilegt og spennandi,“ segir Ingvar.

Þörfin skapaði flotta íslenska tæknilausn

Fyrirtækið Hafbor ehf. á Siglufirði varð til fyrir rúmu ári síðan utan um þróunarverkefni, sem rekja má til hugmyndaauðgi föður Ingvars, Erlings Jónssonar,  og bróður, Hilmars Erlingssonar. Þróunarvinnan fór að mestu fram í bílskúr fjölskyldunnar og snerist um hönnunn meðfærilegs búnaðar, sem hægt væri að nota á hefðbundnum bátum kræklingaræktenda og fiskeldisfyrirtækja. Festingar hafa verið vandamál í kræklingarækt um heim allan því þær vilja hreyfast og færast úr stað. Búnaðurinn þurfti því að vera bæði léttur og meðfærilegur auk þess sem hann þurfti að ná niður á mikið dýpi svo unnt væri að setja festingar niður í botn án aðkomu kafara. Sá búnaður, sem nú hefur verið þróaður, gerir það kleift að fara niður á allt að 100 metra dýpi og setja nður festingar með áfastri línu.

Þarfagreining fyrir búnaðinn lofaði strax mjög góðu

Í upphafi þróunarferilsins voru íslenskir kræklingabændur í nánu samstarfi við MATÍS, sem hafði frumkvæði að því að sækja um styrk til Tækniþróunarsjóðs til hönnunar búnaðarins.  Eftir að jákvætt svar við styrkbeiðni fékkst, var settur kraftur í að smíða frumgerðina og þróa hana. Jafnframt fékkst styrkur til verkefnisins frá NORA, Norræna tæniþróunarsjóðnum, til áframhaldandi smíði og þróunar, í samstarfi við norræna kræklingaræktendur. Finnskur samstarfsaðili í kræklingarækt gerði mjög ítarlega þarfagreiningu fyrir búnaðinn sem lofaði strax mjög góðu í ljósi vaxandi þrýstings á að auka fiskeldi og skelfiskræktun um heim allan. „Við höfum verið afar lánsamir með okkar samstarfsaðila fram til þessa, fólk og fyrirtæki, sem hafa séð sér hag í að taka þátt í verkefninu. Tengslanetið hefur því farið ört stækkandi, bæði hér heima og erlendis,“ segir Ingvar og bætir við að verkefnið hafi að auki notið dýrmæts stuðnings,  leiðsagnar og handleiðslu sérfræðinga Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í gegnum allt þróunarferlið.

Fyrirtækið er nú í eigu feðganna Erlings Jónssonar, Hilmars, Jóns Ómars og Ingvars Erlingssona, Siglfirðings hf., Bill Silkes og Birgis Jónssonar. Markaðssetning búnaðarins hófst fyrir rúmu ári og lofar góðu.

Nánari upplýsingar um Hafbor er að finna á heimasíðu Hafbors en einnig er að finna lýsandi myndbönd af tækninni á Youtube - sjá hér

Nánari upplýsingar um Catalina Sea Ranch:

http://catalinasearanch.com/Catalinasearanch.com/Home.html

Tengill á frétt um leyfisveitingu Catalina Sea Ranch:

http://www.presstelegram.com/business/20140108/california-coastal-commission-approves-aquaculture-facility-off-long-beach-shore