Samfélagsleg fyrirtæki og sjálfbær orkunýting

28. janúar 2014

Samfélagsleg fyrirtæki og sjálfbær orkunýting verða í brennideplinum á málstofu, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við verkefnisstjórn NPP-SECRE verkefnisins bjóða til í lok mánaðarins. Á málstofunni munu fulltrúar frá Community Energy Scotland auk fulltrúa nokkurra samfélaga frá Orkneyjum deila reynslu sinni af sjálfbærum orkukostum með  uppbyggingu samfélagslegra fyrirtækja og aukinni samfélagslegri ábyrgð. Fjallað verður um reynslu Skota og Orkneyinga frá ólíkum hliðum í þessum geira. Meðal annars verður fjallað um þá aðferðafræði, sem þeir beittu, og þann árangur, sem þeir náðu með því að fá fólk og samfélög til að vinna saman auk þess sem fjallað verður um þá þætti, sem virkuðu í uppbyggingu þessa samspils og þá þætti, sem virkuðu ekki. Einnig verður velt uppi spurningum um hvað Íslendingar og íslensk samfélög geta lært af reynslu Orkneyja.

Nánari upplýsingar og skráning - hér

Samfélagsleg fyrirtæki - vindmyllur

Smáir og stórir sjálfbærir orkukostir

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er þátttakandi í NPP-verkefninu SECRE, sem stendur fyrir Social Enteprises in Community Renewable Energy. SECRE-verkefnið er samstarfsverkefni tólf aðila í sjö löndum og er tilgangurinn að þróa þjónustu, þjálfun og ráðgjöf fyrir samfélagsleg fyrirtæki, sem vinna að sjálfbærri orku og orkunýtingu. Löndin eru: Finnland, Norður-Írland, Írland, Skotland, Svíþjóð, Noregur og Ísland.

Einn af samstarfsaðilum Nýsköpunarmiðstöðvar í SECRE er Community Energy Scotland (CES), sem er góðgerðarstofnun í Skotlandi. Hlutverk stofnunarinnar er að veita ráðgjöf til samfélaga, sem vinna að uppbyggingu smárra og stórra sjálfbærra orkukosta sem leitt geta til betri og sterkari sjálfbærra samfélaga. Hlutverk CES hefur þannig meðal annars verið að leiða saman samfélög, stjórnvöld og fyrirtæki til að reyna að finna nýjar leiðir til að byggja upp sjálfbærar lausnir í orkumálum.

Íslendingar geta margt lært af Orkneyjum

Einn verkþáttur NPP-SECRE verkefnisins eru námskeið og málstofur í þátttökulöndunum. Ákveðið var að CES væri vel til þess fallið að deila reynslu sinni af sjálfbærri orkunýtingu og samfélagslegri uppbyggingu fyrirtækja þar sem að margt er líkt með Íslandi og Orkneyjum. Bæði eru fámenn eyjasamfélög og gætu Íslendingar lært margt af Orkneyjum, þar sem þar hefur tekist að virkja sjálfbæra orkukosti. Gestirnir, sem sækja munu Ísland heim og deila reynslu sinni, eru fulltrúar smárra og afskekktra eyjasamfélaga í Orkneyjum sem hafa með seiglu og hugviti leitt leiðina að samfélagslegri sjálfbærnisþróun með stofnun samfélagslegra fyrirtækja í þeim tilgangi að framleiða sjálfbæra orku. Þannig hefur þeim tekist að skapa tekjur með sölu orkunnar, sem ekki er dreift sem gróða, heldur er tekjum af starfseminni stýrt með því að fjárfesta á ný í samfélagslegum verkefnum, litlum samfélögum  til hagsbóta.

SECRE-verkefnið er styrkt af NPP-áætluninni, sem stendur fyrir Northern Periphery Programme. Ásamt SECRE-samstarfslöndunum sjö, eru norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Skotlands ásamt Færeyjum og Grænlandi aðilar að NPP-áætluninni. Henni er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum, sem miða að því að finna lausnir og/eða stunda rannsóknir á sameiginlegum viðfangsefnum norðurslóða, sem í þessu tilfelli eru fyrirtæki tengd sjálfbærum orkukostum.

Málstofan fer fram fimmtudaginn 30. janúar frá kl. 8.30 til 12.30. í höfuðstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að Árleyni 8, 112 Reykjavík. 

Aðgangur á málstofuna er ókeypis - skráning fer fram hér

Tengill á NPP-áætlunina: http://www.northernperiphery.eu/en/home/

Tengill á Community Energy Scotland: http://www.communityenergyscotland.org.uk/