Seiðkonur sækja sköpunarkraftinn í töfra

06. janúar 2014

Krambúðin er krúttleg töfrabúð í litlu timburhúsi, sem stendur rétt við Hótel Búðir á Snæfellsnesi. Innandyra ráða ríkjum seiðkonurnar, vinkonurnar og viðskiptafélagarnir  Sigríður Gísladóttir og Agnes Lind Heiðarsdóttir, sem eru sannfærðar um að tilviljunin ein hafi ekki leitt þær saman enda hafi hugðarefni þeirra og áhugamál smollið saman um leið og þær hittust fyrir um fjórum árum síðan undir hinum seiðmagnaða Snæfellsjökli.

Krambúðarsystur

Þó sköpun hafi alltaf fylgt þeim sitt í hvoru horninu, fór sköpunarkrafturinn fyrst á flug eftir að þær náðu saman og nú er svo komið að þær vinna nú að viðskiptahugmynd, sem hefur á sér dulúðlegan blæ undir formerkjum Töfratalsins. „Við erum miklar seiðkonur, skal ég segja þér. Við þykjum einfaldlega stórskrýtnar og skemmtilegar kerlingar og höfum tröllatrú á töfrum enda má segja að töfrar séu okkar helsta auðlind í sköpuninni,“ segir Sigríður og hlær.

Krúttlega Krambúðin

Nýskapandi notkun á menningararfinum

Með viðskiptahugmynd sína settust seiðkonurnar tvær á skólabekk hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á haustdögum 2013, nánar tiltekið á Brautargengisnámskeið, sem er fyrir konur með viðskiptahugmyndir, enda vildu þær fanga og forma hina dulúðlegu viðskiptahugmynd sína niður á ásættanlegt og „jarðbundið“ plan fyrir sjálfa sig og hugsanlega samstarfsaðila og fjárfesta. Þær útskrifuðust föstudaginn 13. desember síðastliðinn og fengu viðurkenningu fyrir frábæra og nýskapandi notkun á menningararfinum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti þeim viðurkenninguna.

Töfratalið varðveitir og miðlar menningararfinum

„Töfratalið er margslungið verkefni, sem ætlað er að varðveita og miðla menningararfi. Töfratalið er viðskiptahugmynd, sem inniheldur fróðleik, skemmtun og listaverk. Við ætlum að gefa út bók, veggspjald og dagatal þar sem þræðir sögu, goðsagna, grasafræði og alþýðufróðleiks mætast. Í Töfratalinu má finna upplýsingar um notkun jurta, fornar og nýjar hátíðir, tengsl við náttúru og sögu, uppskriftir og aðferðir í mat og töfrum, rúnir og handverk og margvíslega hversdags- og hátíðartöfra, allt sem tilheyrir efni notandans hverju sinni.

Töfratalinu má líka lýsa sem viðburðadagatali fyrir daga, siði og hátíðir, sem frá örófi alda hafa verið helgaðar gjöfum og fórnum. Hér er á ferðinni eins konar vegvísir með leiðsögn og fróðleik, hagnýtum upplýsingum og möguleikum á að heiðra og halda í gamlar hefðir. Töfratalið getur verið tilefni veisluhalda eða viðburða og þar má finna gjafir og töfra til að gleðja vini, ættingja og vinnufélaga,“ segir Sigríður, sem segir að mikið grúsk við texta- og myndmál sé fyrir höndum hjá þeim stöllum. Síðan þurfi náttúrulega að „galdra“ að verkefninu rétta fagaðila og hugsanlega fjárfesta sem kostunaraðila. „Stefnan er að við tökum okkur nauðsynlegan tíma í verkefnið til að úr verði flott afurð. Við ætlum ekkert að flýta útgáfunni út af einhverjum markaðsskrímslum þarna úti.“

Lækningamáttur, heilun og hamingjuvaki

Í fyrstu verður einblínt á íslenska útgáfu Töfratalsins, en þær Sigríður og Agnes eiga fastlega von á því að ensk útgáfa fylgi í kjölfarið svo unnt sé að mæta þörfum erlends markaðar. Segja má að viðskiptahugmynd Töfratalsins sé afsprengi Krambúðarinnar, sem þær stöllur hafa rekið í tilraunaskyni undanfarin tvö ár. „Ástríða okkar beggja á náttúrunni og náttúrutengdum afurðum tengdi okkur saman, en hingað til höfum við verið að búa til alls konar stórskrýtnar náttúrumiðaðar vörur. Við notum gríðarlega mikið af jurtum úr náttúrunni í sápur, krem og seiði, búum til ilm og bragð og gerum duft og púður. Við búum til galdraprik og rúnasteina, freyjuvendi og litlar freyjudúkkur, sækjum töfrasteina og draumasteina út í náttúruna sem allir hafa sína eiginleika. Þeir gefa kraft, einbeitingu og hamingju og með þeim er gott að hugleiða til að laða það besta fram í sínu mannlegu eðli. Og það má jafnvel „galdra“ til sín gæjann sem maður er skotinn í,“ segir Sigríður og bætir við að drifkraftur og leiðarljós vinkvennanna sé: lækningamáttur, heilun og hamingjuvaki.

Telja töfra vera ástríðuna og lífið

Sigríður og Agnes eru báðar bornir og barnfæddir Reykvíkingar, en hvernig skyldu leiðir þessara tveggja töfrakvenna hafa legið saman? „Ég fór í tjaldútileigu á Búðir á Snæfellsnes fyrir þrjátíu árum síðan og er ekki enn farin heim. Ég  náði mér í karl og keypti stærra tjald. Ég bý nú í Bjarnarfossi í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi og kenni við Lýsuhólsskóla, sem er deild innan Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Agnes er hinsvegar svakalega flinkur blómaskreytir og rak m.a. blómaverslun í Reykjavík lengi vel auk þess að taka að sér ýmis verkefni í blómaskreytingum. Eftir að kreppan alræmda skall á, lagði Agnes verslunina sína niður og flutti á Nesið eftir að hafa verið ráðin í vinnu á Hótel Búðir. Þar lágu leiðir okkar saman og augljóst var frá upphafi að það var sko engin tilviljun. Við vorum einfaldlega leiddar saman. Við höfðum verið að vinna að sömu hugðarefnum sitt í hvoru horninu mjög lengi, en ákváðum mjög fljótlega eftir kynnin að snúa bökum saman en sundur. Það hlyti að auka töframáttinn,“ segir Sigríður, sem er menntaður myndlistarmaður frá Mynd- og handíðaskóla Íslands, sem nú tilheyrir Listaháskóla Íslands.  Hún bætti við sig kennsluréttindum í Listaháskólanum og er því með sérkennslu í myndlist.

Þær Sigríður og Agnes segjast vera mjög ánægðar með nýafstaðið Brautargengisnámskeið og telja að námsefnið komi þeim að góðum notum við uppbyggingu viðskiptahugmyndarinnar um Töfratalið. „Nú vitum við betur hvernig við getum komið hugmyndinni í framkvæmd og stuðlar að því að við getum unnið að okkar hugðarefni og áhugamáli enda eru töfrar ástríðan og lífið, hamingjan í heiminum,“ segir Sigríður töfrakona að lokum. 

Sjá fésbókarsíðu Krambúðarinnar hér