Stafræn bylting í Breiðholti

24. janúar 2014

Ný stafræn smiðja, Fab Lab Reykjavík,  var formlega opnuð í dag að Eddufelli 2 í Breiðholti. Fab Lab Reykjavík er fimmta smiðja sinnar tegundar á Íslandi þar sem ungir sem aldnir fá tækifæri til að þjálfa sköpunargleðina og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Fab Lab Reykjavík er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Reykjavíkurborgar og Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Fab Lab Reykjavík - samstarfsaðilar

Hér má sjá Þorstein Inga Sigfússon forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur skólastjóra FB og Dag B. Eggertsson innsigla áframhaldandi farsælt samstarf

Aukið tæknilæsi og hæfni til nýsköpunar

Fab Lab, sem stendur fyrir Fabrication Laboratory, er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er og er markmiðið með starfsemi Fab Lab Reykjavík að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, auka almennt tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. „Stafræn framleiðslutækni er framleiðsluaðferð þar sem tölva er notuð til að hanna nánast hvaða hlut sem er og stýra fullkomnum tæknibúnaði til að framleiða hlutinn til enda. Þannig verða hugmyndir og draumar fólks að veruleika í Fab Lab, því í slíkum smiðjum er fundinn farvegur fyrir flest það veraldlega sem manneskjan þráir, þar sem hún getur teiknað, hannað, útfært og framleitt alla þá hluti, sem hana dreymir um að eiga en finnur hvergi,“segir Frosti  um þá hugmynd, sem upphafsmaður Fab Lab, Neil Gershenfeld við MIT-tækniháskólann í Boston, kallar persónumiðaða framleiðslu.

Fab Lab Reykjavík - opnun

Þrívíddarprentari, laserskerar og rafrásabretti

Óhætt er að segja að Fab Lab Reykjavík smiðjan sé vel tækjum búin. Þar er ýmis konar tækjabúnaður, t.d. stór fræsivél til að búa til stóra hluti úr tré og plasti, lítil fræsivél til að fræsa rafrásir eða í þrívídd til mótagerðar, þrívíddarprentari, laserskerar til að skera út hluti í t.d. pappa, plexígler, MDF eða við og merkja í gler, svo dæmi séu tekin.  Vinylskeri sem sker út límmiðafilmur og koparfilmur til að gera sveigjanlegar rafrásir.  Í smiðjunni verður einnig rafeindabúnaður, sem hægt er að lóða á rafrásabrettin og forrita ásamt ýmsum gerðum af skynjurum, þrívíddarskanni og fjöldi tölva, hlaðinn opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að hanna og búa til hvað sem er.

Staðbundin eftirspurn hefur laðað að Fab Lab-smiðjur um heim allan og þrátt fyrir fjölbreyttar staðsetningar og fjármögnunarleiðir, byggir kjarnastarfsemi þeirra á sömu hugmyndafræði, sem er að gefa almenningi, nemendum, frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum færi á að komast í tæri við nýjustu tækni og tengjast alþjóðlegu samfélagi frumlegra hönnuða og sérfræðinga á öllum sviðum vísinda. Fab Lab Reykjavík er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Reykjavíkurborgar og Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Fab Lab ævintýrið hófst á Íslandi 2008

Fab Lab ævintýrið á Íslandi hófst í Vestmannaeyjum árið 2008 þegar fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi var þar opnuð. Frá upphafi hefur verið náin samvinna milli Fab Lab á Íslandi, MIT- háskólans í Boston og alþjóðanets Fab Lab smiðja, Fab Foundation. Fab Lab smiðjur voru  árið 2010 opnaðar á Akranesi og  á Sauðárkróki og árið 2013 var Fab Lab smiðja opnuð á Ísafirði. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með Fab Lab á Íslandi, sér um daglegan rekstur smiðjanna og þjálfun kennara grunn- og framhaldsskóla, sem stefna vilja á nýsköpun í námi nemenda sinna.„Þegar fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi var opnuð í Eyjum árið 2008, voru 38 Fab Lab-smiðjur starfræktar í heiminum, en nú eru smiðjurnar alls orðnar 290 talsins sem mynda Fab Lab netverkið á heimsvísu.Hvarvetna í heiminum hafa smiðjurnar haft aukin nýsköpunaráhrif í samfélaginu og sums staðar hafa smiðjurnar verið settar upp með þróunaraðstoð því markmiðið er alltaf það sama: að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft í hvers kyns sköpun og með bestu fáanlegu tækni, sem notuð er í iðnaði, hvort sem það er laser-skurðtæki, fræsivélar, rafeindatæki eða annað,“segir Frosti Gíslason, verkefnastjóri  Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Vestmannaeyjum. Allur hugbúnaður til hönnunar er frjáls og opinn öllum til notkunar og í reynd er það einvörðungu hugmyndaflugið sem getur takmarkað fólk í Fab Lab-smiðju. Fólk greiðir einungis efniskostnað og fær aðstoð og aðgang að tækjum og tólum í smiðjunum.

Bylting í þrívíðri stafrænni framleiðslutækni

„Stafræn framleiðsla gefur einstaklingum nú tækifæri til að hanna og framleiða áþreifanlega hluti eftir þörfum, hvar sem er og hvenær sem er,“segir Neil Gershenfeld. Rætur stafrænnar framleiðslubyltingar má rekja aftur til ársins 1952 þegar vísindamenn hjá Massachusetts Institute of Technology (MIT) tengdu frumstæða stafræna tölvu við fræsivél og gerðu þannig fyrstu tölvustýrðu vélina. Á níunda áratugnum komu ný tölvustýrð framleiðsluferli á markaðinn sem bættu við efni í stað þess að fjarlæga það. Þessi nýja framleiðslutækni kallast þrívíð framleiðsla. Hinni þrívíðu framleiðslutækni hefur víða verið fagnað sem byltingu og þetta er það sem koma skal. Tölvustýrð framleiðslutæki til einkanota eru þó enn ekki til, en það mun verða að veruleika í framtíðinni.

„Stafræn framleiðsla samanstendur af mun meira en þrívíddarprentun.  Stöðug þróun er í gangi þar sem unnið er með möguleikana á því að breyta gögnum í hluti og hlutum í gögn. Margra ára rannsóknarvinnu er enn ólokið til þess að fullkomna þessa framtíðarsýn, en byltingin er komin vel á veg. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er helsti styrkur Fab Lab smiðjanna ekki tæknilegur, heldur er hann félagslegur vegna  hins öfluga samstarfsnets Fab Lab smiðja um allan heim þar sem fólk hefur það að markmiði að deila þekkingu á milli staða. Til þess að halda í við það sem fólk er að læra í smiðjunum, hefur Fab Lab netverkið hleypt af stokkunum Fab Akademíu. Fab Akademían líkist ekki hinum hefðbundnu mennta- og rannsóknarstofnunum heldur er hún meira í ætt við Internetið, tengt á staðnum en umsýslan er á heimsvísu. Samfélög ættu hvorki að óttast né hunsa stafræna framleiðslu. Betri leiðir til að búa til hluti geta stuðlað því að búa til betri samfélög. Með því að færa frumkvöðlum jákvætt og opið umhverfi, hvar sem þeir eru, mun þessi stafræna bylting gera okkur kleift aðbeisla stærri hluta hugvits í heiminum,“segir Gershenfeld.

Nánari upplýsingar veitir Frosti Gíslason, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í síma: 861-5032 | frosti@nmi.is

Nánari upplýsingar er einnig að finna á www.fablab.is eða hér