Til í allt eftir Brautargengið

08. janúar 2014

„Markmið mín snúast nú um að auka framleiðslugetuna með betri búnaði, stofna eigin netverslun, stofna eigið vörumerki undir nafninu „Ylja“, búa til vörulista og auka dreifingu vörunnar með því að semja við fleiri söluaðila, bæði hérlendis og erlendis,“ segir Árný Björk  Birgisdóttir, vöruhönnuður og framleiðandi Ylja ullarvara. Árný er myndlistarmenntuð og hefur lengst af starfað innan skólakerfisins, bæði við kennslu og sem stuðningsaðili við börn með sérþarfir. Draumurinn um eigið hönnunarfyrirtæki blundaði þó alltaf í bakhöfðinu og svo fór að árið 2009 hóf hún að hanna og framleiða eigin prjónavörur úr íslenskri ull. Hún er nú þegar búin að hasla sér völl í ferðamannaverslun á innanlandsmarkaði og hefur auk þess verið að geta sér gott orð í Þýskalandi fyrir vörur sínar þótt útflutningurinn hafi farið hljótt hingað til. Á næstunni hyggst hún stofna einkahlutafélag um reksturinn undir heitinu „Ylja“.

Árný Björk Birgisdóttir

Árný Björk tók þátt í Brautargengisnámskeiði á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á haustönn 2013 og útskrifaðist föstudaginn 13. desember síðastliðinn. Við útskrift afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, henni viðurkenningu fyrir „Bestu viðskiptaáætlunina“.  Í umsögn Brautargengis við útskrift sagði að áætlun Árnýjar væri einkar vönduð, jarðbundin og ítarlega væri farið í fjármálin.

Tveir markaðir á Íslandi og í Þýskalandi

Viðskiptaáætlun Árnýjar lýtur annars vegar að hönnun, framleiðslu og sölu aukahluta og fatnaðar úr íslenskri ull með áherslu á Þýskalandsmarkað, en hinsvegar að hönnun, framleiðslu og sölu minjagripa úr íslenskri ull með íslenskar ferðamannaverslanir í huga. Varan hefur þá sérstöðu að vera handgerð úr íslensku hráefni og skarta minjagripirnir m.a. myndum úr íslenskri náttúru og sögu. Árný vinnur eingöngu með lopa og garn frá Ístex. Markaður fyrir vörurnar er tvískiptur. Annars vegar er markaðurinn erlendir ferðamenn á Íslandi og hinsvegar er markaðurinn þýskar konur á aldrinum 25-50 ára sem versla á netinu. Ylja selur vörur á tveimur markaðssvæðum, sem hafa háannatíma á mismunandi mánuðum. Það gerir Ylju mögulegt að vera með starfsemi allt árið þó varan sé árstíðabundin. Sérstaða vörunnar er sú að hún er handunnin úr því einstaka hráefni sem íslenska ullin er. Fyrsta varan, sem Árný setti á markað, voru ungbarnaskór úr þæfðri ull. Síðan hefur vörulínum fjölgað svo um munar enda er Árný komin í útrás auk þess sem hún hefur þurft að kaupa prjónavélar til að auka framleiðslugetuna. En betur má ef duga skal. Enn stendur hún frammi fyrir því að sölumöguleikar takmarkast af framleiðslugetu og er því með áætlanir um frekari tækjakaup á nýju ári.

Ullarskór - Árný Björk

Ákvað að grípa tækifæri og svala þörf

Í ljósi sívaxandi fjölda ferðamanna til Íslands og jákvæðrar ímyndar Íslands um hreina náttúru, ferskleika og gæði, þá fannst Árnýju vanta á markaðinn meira úrval lítilla minjagripa úr íslensku hráefni, unna á Íslandi. „Hugmynd mín fólst í að grípa það tækifæri til að koma íslenskum ullarvörum á markað hér heima og erlendis,“ segir Árný. Minjagripalínan hefur að geyma segla, lyklahringi, lyklakippur, hengi og nælur. Prjónavörulínan hefur að geyma húfur, trefla og peysur. Þæfð ullarvörulína hefur svo að geyma húfur, vettlinga, barnaskó, inniskó og peysur.

Til að nálgast markaði sína hefur Árný myndað tengsl við nokkrar verslanir í Reykjavík ásamt Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem vörurnar voru boðnar til sölu í sumar við góðar undirtektir og út úr því fékkst dýrmæt reynsla. Árný selur svo vörur sínar í gegnum þýsku netverslunina Dawanda, sem er risastór verslunarmiðstöð á netinu.  Tengslum hefur auk þess verið komið á við tvær verslanir í Þýskalandi með endursölu vörunnar í huga.

Heillaðist af eiginleikum íslenska lopans

En hver eru tildrög þess að Árný Björg ákvað að fara út á hönnun og framleiðslu á ullarvörum? „Mig hafði í raun alltaf klæjað í puttana að skapa og hef  leikið mér í gegnum tíðina með alls konar efnivið.  Ég byrjaði að vinna með lopa árið 2009 og heillaðist af eiginleikum hans. Lengst af hefur þetta náttúrulega bara verið áhugamál svo fór maður að sýna öðrum, sér í lagi þegar ég hélt mig hafa dottið niður á eitthvað skemmtilegt.

Ég byrjaði á þæfðum ungbarnaskóm, sem ég myndskreytti með að þurrþæfa í þá ull og sauma í þá með einbandi. Þessa skó fór ég tvisvar með á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsinu og fékk góð viðbrögð. Einnig prófaði ég að setja skóna á Netið og stofnaði fullt af litlum netverslunum út um allt. Ég fékk fljótt viðbrögð á þýsku netversluninni Dawanda og einbeitti mér því að þeirri verslun. Dawanda er þýskt fyrirtæki, sem hefur opnað útibú um alla Evrópu og býður lista- og handverksfólki að koma vörum sínum á framfæri.

Dansaði af gleði yfir litlum viðskiptum

Það var gaman að búa til litla búð á Dawanda og enn skemmtilegra þegar einhver „kíkti inn“. Þegar ein og ein sala datt inn, óx mér ásmegin og ég dansaði af gleði yfir viðskiptunum þrátt fyrir að verðlagning vörunnar væri varla meira en kostnaðarverðið sjálft.  Ég handgerði fleiri og fleiri vörur, myndaði og setti inn á síðuna. Og þó þetta hafi verið áhugamál í byrjun, blundaði það alltaf baka til að ég væri að byggja eitthvað upp.  Ég var ekki með markvissa markaðssetningu, en hugsaði um að skapa mér traust og velvild innan Dawanda-samfélagsins. Ég byggði upp safn ljósmynda af vörunni. Ég safnaði innlitum, jákvæðum færslum og svokölluðum fimm stjörnu umsögnum. Ég handmálaði svo kort með hverri pöntun í von um að það yki á jákvæða upplifun viðskiptavinarins þegar hann tæki við pakka frá búðinni minni. En það var náttúrulega ekkert vit í þessari framleiðslutækni að handgera hvern hlut sem gat tekið marga klukkutíma enda takmörkuðust sölumöguleikarnir af framleiðslugetunni. Mig fór að dreyma um prjónavélar og svo fór að ég fann þá réttu á eBay sem auðveldaði mér lífið til muna.“

Fyrir rúmu ári síðan hóf Árný störf hjá Handprjónasambandi Íslands sem efldi mjög áhuga hennar á íslensku ullinni. „Í sumar varð ég vör við að það vantaði á markað litla minjagripi sem hefðu sterkari tengingu við Ísland en innfluttu minjagripirnir, sem flæða út um allt. Ég prófaði að búa til segla og lyklakippur úr ull og fékk betri viðtökur en ég hafði þorað að vona. Þá fór ég fyrst að spá í framleiðslu á minni eigin hönnun og láta mig dreyma um að hafa af þessu áhugamáli mínu atvinnu.

Ég sótti um á Brautargengi og keypti í kjölfarið drauma-prjónavélina á eBay ásamt mótor sem þurfti að dytta talsvert að. Ég hef verið að aðlaga vörurnar mínar að vélinni án þess að glata handprjónaða útlitinu. Aðaláherslu hef ég enn sem komið er lagt á trefla og húfur sem einfalt er að búa til í vélinni. Salan á netsíðu Dawanda fór á flug í nóvember 2013. Ég fór að fá um 500 heimsóknir á dag í búðina og viðskiptavinir hafa sett vörur frá mér á yfir átta þúsund "veggspjöld" og birt á síðunum sínum auk þess sem Dawanda hefur notað vörur frá mér í kynningarefni og netfréttabréf sem hefur gert það að verkum að heimsóknum til mín hefur fjölgað.“

Núllpunkturinn kallaði á hækkun vöruverðs 

Árný segist hafa fulla trú á að Brautargengisnámskeiðið orðið til þess að trúa að nú væri lag að stofna fyrirtæki og fjárfesta í búnaði til að auka framleiðslugetuna. Hingað til hef ég notað þá fjármuni, sem komið hafa inn, til að vaxa, kaupa efnivið, tæki og tól. Eftir að ég lærði á núllpunktinn og gerð fjárhagsáætlunar á Brautargengi ákvað ég að hækka öll vöruverð til að gera reksturinn raunhæfari en hann var. Mér til mikillar furðu kom sú hækkun ekki niður á vaxandi sölu. Námskeiðið hefur hvatt mig áfram á minni braut og nú er ég orðin tilbúin að gefa allt í verkefnið auk þess sem ég ætla að kynna mér möguleika mína með aðstöðu á frumkvöðlasetri, þar sem maður getur verið innan um ólíka sköpunarkrafta, sem geta stutt hverja aðra,“ segir Árný Björk að lokum.

Nánari upplýsingar um fyrirtækið er að finna á Fésbókarsíðu Ylju