Könnun um aðgengi að fjármagni og fjárfestingaleiðum lögð fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki

09. nóvember 2014

Í tengslum við ráðstefnu um aðgengi íslenskra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að fjármagni sem haldin verður 11. nóvember næstkomandi framkvæmdi Enterprise Europe Network rannsókn sem náði til þeirra fyrirtækja sem skráð eru á vefsíðuna www.sprotar.is. Vefsíðan Sprotar.is sem rekin er af Nýsköpunarmiðstöð Íslands,  er upplýsinga­veit­a og einn helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsumhverfi þeirra. Vefurinn inniheldur gagnlegar upplýsingar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsemi þeirra og hefur það að markmiði að gera sprotafyrirtæki sýnilegri gagnvart ólíkum hagsmunaaðilum í samfélaginu.

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ýmis mál tengd fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og byggja svo erindi ráðstefnunnar á þeim svörum og þörfum sem könnunin leiddi í ljós. Könnunin var send á 137 fyrirtæki og var svarhlutfallið 36%. 65% af þeim sem svöruðu starfa á sviðum upplýsingatækni og jafnhátt hlutfall er enn með sína vöru/þjónustu í þróun.

Helstu niðurstöður voru þessar:

  • 90% fyrirtækjanna eru opin fyrir fjárfestingarviðræður
  • Flest þeirra hafa fengið fjármagn frá opinberum aðilum eða lánastofnunum til að fjármagna sig
  • 82% fyrirtækjanna hafa áhuga á fjárfestingu frá opinberum sjóðum en lítil hluti þeirra hefur verið í viðræðum eða fengið fjárfestingu frá slíkum sjóðum
  • Fáir hafa fengið fjármagn frá einkaaðilum en 32% fyrirtækjanna hafa áhuga á því
  • Frumkvöðlar horfa hýrum augum til fjármögnunarsjóða í einkageiranum, en 70% þeirra sem svöruðu spurningunni hafa áhuga á viðræðum við slíka sjóði. Aðeins átta fyrirtæki af þeim sem svöruðu hafa fengið fjármagn frá slíkum sjóðum eða eru í viðræðum við þá um fjármagn
  • Mikill áhugi er á því að tala við einstaka fjárfesta en 73% aðspurðra hafa áhuga á því. Aðeins níu fyrirtæki hafa fengið fjármagn frá slíkum fjárfestum og einn var í viðræðum er könnunin var lögð fyrir
  • Áhugi á að leita til lánastofnanna mælist nokkur en 48% svarenda segjast hafa áhuga á því
  • Nærri helmingur frumkvöðlanna eru á þeirri skoðun að auka þurfi upplýsingar um það hvernig finna skuli fjárfesta og fjármagnsleiðir
  • 94% aðspurðra fyrirtækja voru tilbúin að skoða fjárfestingu erlendis frá
  • Meðaltals eignahlutur frumkvöðlanna sjálfra í fyrirtækjunum mældist 77%

Ráðstefnan um aðgengi íslenskra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að fjármagni verður eins og áður sagði haldin þriðjudaginn 11. nóvember á Grand Hótel og hefst klukkan 9:00. Þar verða ræddar leiðir til að bæta virkan markað að áhættufé á Íslandi. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Enterprise Europe Network á Íslandi í samvinnu við lykilaðila í stoðumhverfi nýsköpunar hér á landi. Skráning á ráðstefnuna fer fram hér. 

Ráðstefna um aðgengi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að fjármagniÁhugaverðir fyrirlesarar

Á ráðstefnunni munu koma fram margir áhugaverðir fyrirlesarar.

Michael Culligan BIO. Michel er sérfræðingur í fjármögnun sprotafyrirtækja og býr yfir viðamikilli reynslu sem englafjárfestir. Hann er stjórnarmeðlimur í EBAN og yfirmaður HBAN í Írlandi en þeir hafa safnað yfir 45 milljónum punda frá englafjárfestum sem veitt hafa verið í yfir 250 sprota- og frumkvöðlafyrirtæki á undanförnum 6 árum. Michael er yfirmaður Dublin Business Innovation Centre sem stýrir digrum fjárfestingasjóði, mjög farsælu englafjárfestaneti, frumkvöðlasetri sem hýsir yfir 90 fyrirtæki auk þess að veita þeim ráðgjöf og stuðning. 

Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ. 

Eyrún Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri RóRó.

Dr. Bjarki Andrew Brynjarsson, framkvæmdastjóri Marorku. 

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri innlendra viðskipta Meniga