Fab Lab Eyjafjarðar opnar með viðhöfn

04. febrúar 2017

Fab Lab smiðja hefur verið opnuð í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Að rekstrinum stendur hollvinafélagið Fabey (Fab Lab Eyjafjarðar). Stofnendur eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Akureyrarbær og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.  

IMG_2837

Opnun smiðjunnar var fagnað formlega á föstudaginn.

Með Fab Lab í Eyjafirði er stefnt á að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, auka almennt tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmið verkefnisins er enn fremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja og einstaklinga.

FabEy gerir samning við Verkmenntaskólann á Akureyri um rekstur Fab Lab smiðju í Eyjafirði í 3 ár. Verkmenntaskólinn leggur til húsnæði fyrir Fab Lab og ræður verkefnisstjóra sem hefur umsjón með starfseminni. FabEy stuðlar að fræðslu og þjálfun grunnskólakennara í grunnskólum Akureyrar, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, með árlegum námskeiðum á þessum 3 árum sem samningurinn nær til. Námskeiðin eru fræðsla í notkun á hugbúnaði fyrir FAB LAB ásamt fræðslu um notkun á tækjum Fab Lab smiðjunnar. FabEy sér til þess að nemendur í Grunnskólum Akureyrar ásamt kennurum fái aðgang að Fab Lab smiðju samkvæmt nánara samkomulagi við verkefnisstjóra Fab Lab Eyjafjarðar. 

Akureyrarbær og grunnskólar á Akureyri munu leggja áherslu á að nýta Fab Lab smiðjuna í nýsköpunar- og frumkvöðlakennslu, vali eða öðrum áföngum.