Vel heppnaður ársfundur

06. mars 2017

Arsfundur _2016_1

Húsfyllir var á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og tókst fundurinn með eindæmum vel. 

Mörg hnitmiðuð erindi voru flutt á fundinum sem vörpuðu ljósi á þau fjölbreyttu og spennandi verkefni sem unnið er að innan veggja Nýsköpunarmiðstöðvar. Einnig voru sýnd stutt myndbönd um 10 ára sögu miðstöðvarinnar, um verkefnið Brautargengi og um Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. 

Ráðherra nýsköpunarmála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ávarpaði fundargesti og síðan reið forstjórinn á vaðið með erindi sem hann nefndi „Nýsköpunarbyltingin“. 

Fundarstjóri var Jón Ólafsson, tónlistarmaður sem stýrðu fundinum röggsamlega úr sæti sínu við flygilinn á sviðinu. Honum til liðsinnis voru tónlistarfólkið Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson. 

Í lok fundar tók Hörður Sigurbjarnarson við viðurkenningunni Brautryðjandinn 2017  fyrir hönd sína og bróður síns, Árna, hjá Norðursiglingu á Húsavík. Þeir bræður hafa unnið ötullega að því að ryðja braut hvalaskoðunar á Íslandi og hafa auk þess gert gangskör að því að varðveita fágæta eikarbáta fyrir komandi kynslóðir. 

Brautrydjandinn

Erindin sem flutt voru á fundinum eru fáanleg á pdf formi á vef Nýsköpunarmiðstöðvar.  Kynningar af ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar 2017

Arsfundur _2016_3 Copy