Úrslit í hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra

16. júní 2017

Nýverið fóru fram úrslit og kynning á tillögum sem bárust í hugmyndasamkeppni EIMS um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra sem haldin var í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf. Alls bárust 14 tillögur í samkeppnina, sem sýndu allar vel fram á fjölbreytta nýtingarmöguleika á svæðinu.

Dómnefnd hafði áður valið fjórar bestu tillögurnar og fór fram kynning á þeim í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dómnefndina skipuðu Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Ágúst Torfi Hauksson, stjórn Vaðlaheiðarganga hf., Sigríður Ingvarsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Jón Steindór Árnason, Íslenskum verðbréfum.

Í fyrsta sæti varð tillagan Svörtu loft frá Stefáni Tryggva- og Sigríðarsyni. Vinningshugmyndin tengist vatninu í Vaðlaheiðargöngum og gengur út á að nýta umhverfið í nánd við göngin til hellagerðar og einstakrar baðupplifunar. Í tillögunni sem send var inn um svörtu loft kom vel fram hvernig frumkvöðlarnir sjá heildaruppbygginguna fyrir sér og hvernig hún fellur að landslaginu, og tengist uppbyggingu gangna með jákvæðum hætti. 

Nánari upplýsingar um samkeppnina má nálgast á heimasíðu EIMS.

Full Size Render
Frá verðlaunaafhendingunni (ljósmynd: Auðunn Níelsson)