Íslenskir frumkvöðlar slá í gegn í alþjóðlegri keppni

20. nóvember 2017

Alþjóðleg frumkvöðlakeppnin Creative Business Cup var haldin í Kaupmannahöfn 15. og 16. nóvember sl. en Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili keppninnar.

Fyrirtækið Genki Instruments keppti fyrir Íslands hönd með vöru sína Wave, sem er hringur sem gerir tónlistarfólki kleift að hafa áhrif á tónlistarsköpun og flutning í rauntíma með hreyfingum handarinnar. Með hugbúnaði sem fylgir Wave getur tónlistarfólk sérsniðið hringinn að sínum þörfum með því að para saman hreyfingar og þær breytingar sem þær hafa á tónlistina.

Alls tóku yfir 60 lönd þátt í keppninni sem er allt í senn fjárfestakynning, vinnustofur og fyrirlestrar. Genki Instruments stóð sig frammúrskarandi vel enda með spennandi vöru og lenti í 2. sæti í keppninni. Vara þeirra vakti mikla athygli og áhuga jafnt hjá fjárfestum sem og sérfræðingum innan skapandi greina, hvaðeina að úr heiminum.  Genki Instrument hefur nú aðgang að tengslaneti Creative Business Cup um allan heim sem fyrirtækið getur nýtt sér í áframhaldandi þróun.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er einstaklega stolt af frammistöðu Genki Instruments og óskar þeim innilega til hamingju með flotta frammistöðu.

Nánari upplýsingar veitir Sigþrúður Guðnadóttir verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, sg@nmi.is

 Genki CBC

Heimasíða Genki Instruments: https://www.genkiinstruments.com/

Heimasíða keppninnar má finna hér: http://www.creativebusinesscup.com/