Nákvæmari staðsetning á söfnum

21. nóvember 2017

LocatifyÍslenska hugbúnaðarfyrirtækið Locatify hefur þróað lausn með 20 cm nákvæmni til staðsetningar í söfnum og á sýningarsvæðum. Með hugbúnaðinum er hægt að breyta sjálfvirkt um hljóð- og myndskrár í snjalltækjum á svipstundu við sérhvert skref sem gestur safns tekur, þannig er hægt að bjóða uppá nýja aðferð við að njóta sýninga með gagnvirku efni sem bætir upplifun í safnaheimsóknum. Þessi tækni var sýnd í fyrsta sinn á ráðstefnunni, Follow the Vikings í Snorrastofu í Reykholti á dögunum. 

 

Ultra WideBand (UWB) tækni sett í nýtt samhengi

Tæknin sem notuð er nefnist á ensku Ultra WideBand (UWB) og hefur verið nýtt í iðnstýringum um árabil þar sem mikillar nákvæmni er krafist en sjálfvirk vélmenni sækja þá vörur af hillum í vöruhúsum. UWB-tæknin hefur til þessa verið dýr og plássfrek en nýlega framleiddi fyrirtækið Decawave á Írlandi litinn tölvukubb sem getur lesið staðsetninguna með þessari tækni sem nú er sett í nýtt samhengi af Locatify. Fyrirtækið fékk verkefnastyrk frá Rannís við þróun lausnarinnar.

 

Efni sett í vefkerfi, gefið út í smáforriti og virkjast á réttum stöðum

Locatify hefur þróað vefkerfi þar sem hægt er að útbúa leiðsagnir, ratleiki og gagnvirkt upplýsingaefni sem er gefið er út í sérmerktum smáforritum í snjallbúnaði. Þar er hægt að útbúa margmiðlunarefni sem virkjast utanhúss af GPS í 10-15 metra radíus og innanhúss af blátannasendum sem er t.d. notað í Eldheimum í Vestmannaeyjum. Sú lausn gefur um þriggja metra nákvæmi innandyra en krafa kom upp um enn nákvæmari staðsetningu og er UWB-lausnin svar við henni, hún hefur nú verið innleidd í kerfi Locatify. Hluti vörunnar er UWB-sendir, sem í er tölvuflaga og rafhlaða inní armbandi eða hangir í hálsól, sem tengist nemum í hornum sýningarrýmis en tæknin er afar auðveld í uppsetningu.

 

Gestur á safni gengur um og nýtur sjálfvirkrar leiðsagnar

Gestur á safni getur ýmist fengið búnað í hendur á safni eða notað sinn snjallsíma og UWB-búnaðinn sem hann setur á sig. Gesturinn sækir sérmerkt app safnsins og halar niður efninu á staðnum eða áður en hann mætir.  Síðan gengur viðskiptavinurinn um safnið, er með gólfkort í símanum, sér hvar hann er staðsettur og hljóðleiðsögn kemur sjálfkrafa inn eftir því hvar í rýminu hann er og frekara ítarefni birtist á skjá.  Einnig býður kerfið uppá að hafa ratleik þannig að gesturinn getur leyst þrautir á staðnum og safnað stigum.  Leikurinn er upplagður fyrir skólahópa í safnafræðslu.

 

Nýir markaðir opnast

Tæknin opnar nýja markaði og veitir Locatify sérstöðu og forskot á markaði fyrir söfn, gallerí og sýningarsvæði þar sem þörf er á nákvæmri staðsetningu innanhúss. Starfsmenn Locatify kynntu þessa tækni á safnaráðstefnu Museum Next í Rotterdam og sýndu hana jafnframt í vinnusmiðju hjá Museum Ideas í London en mikil áhugi er á tækninni og viðræður eru hafnar um að setja hana upp erlendis. Með því að bjóða viðskiptavinum UWB-lausnina myndar Locatify sér þá sérstöðu að geta boðið bestu staðsetningarþjónustu innanhúss fyrir snjallsíma sem völ er á.