Íshúsið í Hafnarfirði

Formlegt samstarf milli Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Íshúss Hafnarfjarðar var undirritað á árinu 2015. Samstarfið felur í sér ýmis atriði varðandi stuðning og uppbyggingu þeirra frumkvöðlafyrirtækja sem eru til húsa í Íshúsinu en þar er fjölbreytt flóra frumkvöðla og fyrirtækja á sviði skapandi greina. 

Hjónin Ólafur Gunnar Sverrisson tréskipasmiður og Anna María Karlsdóttir mannfræðingur stofnuðu fyrirtækið Íshús Hafnarfjarðar á vormánuðum 2014. Í júlí var gengið frá leigu á hluta fyrrverandi frystihúss við smábátahöfnina í Hafnarfirði og í samvinnu við hóp einstaklinga sem leigði fyrstu rýmin tók Íshúsið formlega til starfa 22. nóvember sama ár.

Grunnhugmyndin var að leigja út mis stórar vinnustofur og verkstæði til einyrkja og smærri fyrirtækja í skapandi greinum í umhverfi sem styddi við og styrkti starfsemi hvers þátttakanda Íshússins. Uppbyggingin hefur verið hröð og eftirspurn eftir rýmum mikil og stöðug frá upphafi. Við formlega opnun voru tólf vinnustofur í útleigu á tæpum 600 fermetrum en í ársbyrjun 2016 eru rýmin orðin 28 talsins á um 1000 fm og auk þess er unnið að standsetningu á rúmlega 300 fm til viðbótar. Í Íshúsinu starfa nú 40 einstaklingar við fjölbreytta iðju, meðal annars keramik hönnun, hnífasmíði, vöru hönnun, trésmíði, myndlist, textíl hönnun og skósmíði.

Eitt af markmiðum starfseminnar er að byggja upp fjölbreytt og öflugt samfélag og áhersla hefur verið lögð á opin vinnurými sem stuðla að samgangi og samtali milli ólíkra faggreina.

Í áframhaldandi uppbyggingu og þróun Íshúss Hafnarfjarðar verður litið til þess að styrkja og efla enn frekar aðstöðu til frumkvöðlastarfs, hönnunar og nýsköpunar í náinni samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  

Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur þátt í innleiðingu á starfsemi frumkvöðlasetursins, veitir aðstoð og ráðgjöf við rekstur, starfsáætlanir og utanumhald starfseminnar. Nýsköpunarmiðstöð Íslands annast faglega aðstoð við frumkvöðla s.s. handleiðslu og upplýsingagjöf. Aðilar á frumkvöðlasetri Íshúss Hafnarfjarðar hafa einnig aðgang að öðrum frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands samkvæmt nánara samkomulagi, upplýsingagjöf, fræðslu, veftólum og tengslaneti, til jafns við aðra frumkvöðla er hafa aðstöðu á frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Álíka samstarfssamningar hafa verið gerðir við setur í Borgarnesi, Selfossi og víðar. 

Opið er fyrir umsóknir um aðstöðu á setrinu. Einfaldlega fyllið út umsókn hér og merkið við Íshúsið í Hafnarfirði.