Kveikjan í Hafnarfirði

Frumkvöðlasetrið Kveikjan sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands annast rekstur á í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ flutti fyrir skemmstu í nýtt húsnæði að Flatahrauni 14 í Hafnarfirði en í því húsnæði hafði slökkvilið Hafnarfjarðar áður aðsetur.

Kveikjan

Samstarfssamningur Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, sveitarfélagsins Álftaness og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um frumkvöðlasetrið Kveikjuna var fyrst undirritaður 1. maí árið 2009. Þá var frumkvöðlasetrið hýst að Strandgötu 11 í Hafnarfirði og hafði setrið frá upphafi það markmið að styðja við bakið á frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á svæðinu með því að útvega þeim faglega aðstoð og aðstöðu sem stuðla átti að nýsköpun, auknum atvinnutækifærum og stofnun nýrra fyrirtækja.

Samningurinn var endurnýjaður á milli Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Hafnarfjarðabæjar og Garðabæjar á vormánuðum ársins 2012 og í kjölfarið flutti setrið í annað og stærra húsnæði að Strandgötu 31 í Hafnarfirði.

Frumkvöðlarnir sem starfa í Kveikjunni hafa nú komið sér vel fyrir í nýjum húsakynnum að Flatahrauni og hefur nýr samstarfssamningur verið undirritaður á milli ofangreindra aðila um afnot húsnæðisins og reksturs frumkvöðlasetursins Kveikjunnar og nær samningurinn til ársins 2018.

Fjölbreyttar viðskiptahugmyndir

Í gegnum þetta áralanga samstarf hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands og bæjaryfirvöld í Garðabæ og Hafnarfirði lagt vinnu í að hvetja einstaklinga innan sinna sveitarfélaga til að hrinda eigin viðskiptahugmyndum í framkvæmd með veru á frumkvöðlasetrinu og aðgengi að faglegri aðstoð og upplýsingagjöf og má með sanni segja að  árangur þessa samstarfs sé ótvíræður og sýnilegur. Hjá fyrirtækjunum sem starfa í Kveikjunni starfa á bilinu 25-30 manns. Viðskiptahugmyndirnar eru fjölbreyttar og á þeim árum sem Kveikjan hefur starfað hafa mörg frumkvöðlafyrirtækjanna sprengt utan af sér starfsrýmið á frumkvöðlasetrinu og í kjölfarið flutt í stærra húsnæði sem rúmar aukinn mannafla og vöxt viðskiptahugmyndanna. Má þar nefna fyrirtæki eins og Remake Electric, sem þróað hefur nýja tegund rafskynjara, Luminox sem framleiðir tölvuleiki og Mussikids sem framleiðir íslenskt skemmti- og fræðsluefni sem opnar tónlistarheiminn fyrir börnum.

Opið er fyrir umsóknir um aðstöðu á setrinu. Einfaldlega fyllið út umsókn hér: /studningur/frumkvoedlasetur/umsokn/ og merkið við Kveikjan í Hafnarfirði.

Hvað felst í því að vera í Kveikjunni?

  • Leiga á skrifstofuaðstöðu gegn vægu gjaldi 
  • Sameiginleg kaffiaðstaða
  • Fagleg ráðgjöf og stuðningur Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands
  • Skapandi umhverfi og öflugt tengslanet fyrirtækja og starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands