Setur skapandi greina við Hlemm

Hlemmur - Setur skapandi greina skiptist í þrjú svæði. 

Setur skapandi greina var formlega opnað 20. mars 2013 en Nýsköpunarmiðstöð Íslands átti frumkvæði að opnuninni í samstarfi við Reykjavíkurborg og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Setur skapandi greina er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem sameinar undir einn hatt hóp fyrirtækja og aðila á fjölbreyttu sviði skapandi greina. Í dag hýsir setrið m.a. Útón – Útflutningsskrifstofu tónlistarinnar, Iceland Airwaves, Tónverkamiðstöð Íslands og aðra tónlistartengda aðila.

Mikill áhugi er fyrir því að byggja svæðið við Hlemm upp sem svæði iðandi af menningu, listum og sköpun í margvíslegu birtingarformi og engin tilviljun að setri skapandi greina sé valinn þar staður. Reykjavík er á góðri leið með að verða iðandi menningar- og nýsköpunarborg með sterkt aðdráttarafl fyrir innlenda og erlenda ferðamenn sem og eftirsóknaverður staður til að búa á. Til að þess að byggja enn frekar undir þessar stoðir þarf að koma til enn meiri fjölbreytni í íslenska fyrirtækja-, lista- og mannlífsflóru. Setur skapandi greina verður vonandi sá jarðvegur sem skapandi fólk og fyrirtæki geta vaxið og dafnað í með aðstoð og aðkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. 

Með tilkomu setri skapandi greina er meðal annars verið að stefna líkum fyrirtækjum og aðilum saman, fyrirtækjum sem oft eiga í samkeppni en gætu á sama tíma unnið meira saman í nafni nýsköpunar, atvinnuþróunar og samkeppnishæfni fyrir landið í heild, öllum hlutaðeigandi til hagsbóta og ávinnings. Reynsla af frumkvöðlasetrum hefur sýnt að ólíkar greinar ná á þessum sameiginlega vettvangi að tengjast og vinna saman á ýmsan hátt sem mörgum óraði ekki fyrir.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun  vinna í nánu samstarfi við kynningamiðstöðvar skapandi greina og Íslandsstofu við að miðla þekkingu. Einnig er nauðsynlegt að vera í miklum samskiptum við starfandi fyrirtæki sem nú þegar hafa náð árangri innan skapandi greina með það að markmiði að safna saman reynslusögum og miðla þeim áfram til nýrra sprotafyrirtækja.

Á setri skapandi greina er aðstaða fyrir skapandi frumkvöðla og fyrirtæki á besta stað í bænum og hafa m.a. aðilar úr sviði leiklistar, kvikmynda, sviðslista, myndlista, hugbúnaðargerðar, ferðaþjónustu og auglýsingagerðar haft aðstöðu þar. 

Opið er fyrir umsóknir um aðstöðu á setrinu. Einfaldlega fyllið út umsókn hér: /studningur/frumkvoedlasetur/umsokn/ og merkið við Setur skapandi greina við Hlemm.

Hvað felst í því að vera á setri skapandi greina?

  • Leiga á skrifstofuaðstöðu gegn vægu gjaldi 
  • Aðgangur að fundarherbergjum
  • Sameiginleg kaffiaðstaða
  • Fagleg ráðgjöf og stuðningur Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands
  • Skapandi umhverfi og öflugt tengslanet fyrirtækja og starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands