Business Model Canvas

Viðskiptamódel Business Model Canvas er gagnleg og öðruvísi aðferðafræði til að móta, hanna og greina viðskipthugmyndir. 

Það er ekki til nein ein aðferð til að móta hugmyndir sínar eða viðskiptamódel og hver og einn verður að finna sína leið að settu markmiði. 

Viðskiptalíkan fyrirtækis lýsir verðmætasköpun þess í máli og/eða myndum, til dæmis í efnahagslegum, félagslegum eða menningarlegum skilningi. Með góðu viðskiptalíkani sýnir fyrirtæki fram á rekstrargrundvöll og/eða getur aukið samkeppnisforskot. Business Model Canvas (BMC) er lífleg aðferðafræði sem allir frumkvöðlar ættu að kynna sér. 

BMC er einskonar kortlagning viðskiptahugmyndarinnar sem samanstendur af níu einingum sem eru; helstu samstarfsaðilar, helstu auðlindir og innviðir  fyrirtækisins, megin starfsemi þess, helstu dreifileiðir markhópur/viðskiptavinir, markaðsmál/samskipti, tekjustreymi, kostnaðaruppbygging og virðisskapandi þættir. 

Hægt er að nota líkanið á mjög fjölbreyttan hátt og alls ekki bundið við það sem hér er farið yfir. Hefðbundin aðferðafræði BMC gerir ráð fyrir að úr verði viðskiptaáætlun, hvort sem BMC stendur eitt sem slík áætlun eða unnin er upp úr líkaninu hefðbundin viðskiptaáætlun. Gott er hengja eða teikna líkanið upp á vegg og nota Post it miða til að skrifa helstu stikkorð fyrir hverja einingu. Eitt orð á hvern miða!  Það er mikilvægt að einingarnar níu tengist allar og frumkvöðull á að geta unnið sig í gegnum þær og auðveldlega sagt frá því hvernig fyrirtækið er byggt upp í eins konar söguformi. 

BMC er hentugt í hópavinnu og er í raun öflugra ef það er notað sem slíkt. Að hafa alla megin stólpa viðskiptahugmyndarinnar sjáanlega á myndrænan hátt á einu blaði, gerir það að verkum að hópur fólks getur rýnt viðskiptalíkanið samtímis.  Myndræn framsetning og einföld stikkorð verða góður umræðugrundvöllur sem nýtist í umbreytingum, uppbyggingu og/eða áætlanagerð fyrirtækisins. Allir sem koma að fyrirtækinu verða að hafa sömu sýn á grundvallaratriði rekstursins og er BMC sérstaklega gagnlegt til að ná sameiginlegri sýn milli mismunandi deilda og/eða ábyrgðahlutverka.

Það er mikilvægt að muna að viðskiptamódel og viðskiptaáætlun er ekki aðeins gert einu sinni í upphafi reksturs, heldur er þetta lifandi plagg sem þarf reglulega að endurskoða í samræmi við breytta tíma, ófyrirsjáanlegar aðstæður og áherslur. BMC er því ekki síður gagnleg tæki í endurskoðun ferla, eða rannsókna á nýjum tækifærum innan starfandi fyrirtækja. Það er nauðsynlegt öllum fyrirtækjum að fara í reglulega naflaskoðun og til þess er  Business Model Canvas öflug en einföld aðferðafræði sem vert er að kynna sér nánar og tileinka sér.