Fyrstu skrefin

Rannsóknir og þróun viðskiptahugmyndar getur tekið töluverðan tíma áður en hugmyndin verður að veruleika og er komið á markað.

Þú þarft að þekkja viðskiptahugmyndina þína og fyrirtækið vel og geta útskýrt það fyrir öðrum, t.d. fjárfestum, í stuttu og skýru máli. Gott er að geta lýst þessu í einni eða tveimur setningum.

(Fyrirtækið mitt) er að þróa/selja (lýsing á vörunni/þjónustunni) sem (markhópurinn) geta notað til að(Nýting/lausn á vandamáli) með því að/þar sem (Virkni vörunnar/þjónustunnar).

Markhópurinn

Viðskiptavinir eru undirstaða hvers fyrirtækis og mikilvægasta auðlind þess. Því þarf að greina markaðinn vel og átta sig á því hverjir munu kaupa vöruna og hvernig á að selja þeim hana. Það er mikilvægt að hugsa vel um hver viðskiptavinur þinn er, hvaða vörur og/eða þjónustu þú ætlar að bjóða honum upp á, hver samkeppnin er og hvernig á að koma vörunni/þjónustunni á markað. 

Viðskiptamódelið

Lykillinn að því að koma fyrirtæki á fót er áætlanagerð og fyrsta og mikilvægasta skrefið í henni er að gera góða viðskiptaáætlun fyrir fyrirtækið sem þú hyggst stofna. Í viðskiptaáætlun lýsir þú helstu þáttum hugmyndarinnar og setur fram skýr markmið um starfssemina.

Ýmis tæki og tól eru fáanleg til að aðstoða þig við að gera viðskiptaáætlun. Þú getur halað niður Efnisgrind af viðskiptaáætlun með stuðningstexta og einnig Efnisgrind af viðskiptaáætlun án stuðningstexta þar sem þú getur fyllt inn í þinn eigin texta. 

Reglulega eru haldin námskeið um gerð viðskiptaáætlana á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.