Algeng leyfi fyrir rekstur

Í upphafi þarf að athuga hvort þörf er á leyfum og/eða skráningum fyrir viðkomandi starfssemi. 

Sennilegt er að þörf sé á leyfum til fyrirtækjareksturs og má þar helst nefna starfsleyfi af ýmsum toga sbr. sveins- eða meistarabréf, löggildingu, vottun og þess háttar.  Gott er að hafa tímann fyrir sér og skoða eins fljótt og auðið er hvort þörf sé á leyfum þar sem tíma getur tekið að afla þeirra og leita umsagna og annarra gagna sem gætu reynst nauðsynleg leyfisveitingunni. Það fer eftir atvinnugrein hvar þú sækir um tilskilin leyfi til að geta hafði rekstur og jafnvel getur þurft að fara í nokkra mismunandi staði til að afla leyfa. 

Hér eru dæmi um nokkrar stofnanir sem gefa út algeng leyfi til reksturs:

Á Ísland.is er leyfisveitingagátt þar sem auðkenndir einstaklingar og lögaðilar geta sótt um leyfi til atvinnurekstrar í öruggu umhverfi og láta gáttina sækja fyrir sig flest nauðsynleg fylgigögn. Leyfisveitingagáttin er í stöðugri þróun og enn er ekki hægt að sækja um öll leyfi þar. 

Sýslumenn gefa út töluvert af leyfum sem nauðsynleg eru til ýmiss reksturs, til dæmis reksturs veitinga- og gistingistaða, til skemmtanahalds og tímabundið áfengisveitingaleyfi. Á vefsíðu Sýslumanna er hægt að finna góðar upplýsingar varðandi tegundir leyfa, umsóknaferli og fylgigögn.

Ferðamálastsofa sér um leyfisveitingar til reksturs ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjanda og bókunarmiðstöðva. 

Samgöngustofa gefur út leyfi til farþegaflutninga á lofti, láði og landi. 

Heilbrigðiseftirlitin eru svæðisbundin, skiptast í 10 heilbrigðiseftirlitsvæði og starfa undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Best er að snúa sér til heilbrigðiseftirlits á þeim stað sem fyrirtækið verður staðsett. Heilbrigðiseftirlitin gefa út starfsleyfi fyrir allan starfsleyfiskyldan atvinnurekstur sem lög og reglugerðir um hollustuhætti, mengunarvarnir og matvæli ná yfir, ásamt því að sinna reglubundu eftirliti. 

Vinnueftirlitið byggir starf sitt á samþættingu eftirlits, fræðslu og rannsókna. Ef hefja á rekstur fyrirtækis eða breyta rekstri eldra fyrirtækis skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins um það hvort fyrirhuguð starfsemi standist lög og reglugerðir.


Fleiri sem gætu hjálpað