Bankalán

Það er nánast ógjörningur að standa í rekstri án þess að vera í góðum samskiptum við eigin viðskiptabanka. Þó þú sækist ekki eftir láni í bankanum, þá veita bankar ýmsa þjónustu til restraraðila sem geta komið að góðum notum.

Gott er að fara í bankann og ræða um áætlanir þínar. Þeir munu eflaust gefa þér góð ráð og greina þér frá því hvað er í boði.

Framboð banka á lánum til frumkvöðla kann að vera misjafnt á hverjum tíma. Því borgar sig að skoða hvað er í boði í fleiri en einum banka til að vera viss um að velja besta kostinn.

Það er tvímælalaust betra fyrir þig að vera með viðskiptaáætlun í höndunum. Þá veit bankinn að þér er alvara með hugmyndir þínar og það eykur möguleika þína á láni. Gott getur verið að ræða við starfsmenn bankans tímanlega til að finna út hvað þeir vilja sjá í viðskiptaáætluninni.

Ekki þurfa allir stór lán til að hefja rekstur. Hafðu í huga að áhættan við að fara út í rekstur er minni eftir því sem minna er tekið af lánum. Það getur þó verið að rekstur þurfi verulegt fjármagn til að fara af stað en það þýðir jafnframt að fallið er hærra ef illa fer. Oft er farið út í fyrirtækjarekstur með lítil sem engin bankalán þar sem fjárþörf er ekki mikil í byrjun. Ef þú átt í erfiðleikum með að fá lán þá getur þú farið yfir stofnkostnaðinn og skoðað hvort ekki er mögulegt að lækka hann.

Æskilegt er að þú finnir út snemma hvort þú þarft á bankafjármögnun að halda til að koma rekstri þínum af stað. Þarftu verksmiðju eða skrifstofu? Þarftu að ráða til þín starfsmenn? Tekur tíma að finna viðskiptavini? Ef þú kemst ekki hjá þessum þáttum er fyrirsjáanlegt að þú þurfir að fá peninga að láni og þá hjálpar að hafa góða viðskiptaáætlun.

Hvernig metur bankinn lánaumsókn?

Líklegt er að bankinn meti umsókn þína á a.m.k. þremur þáttum:

  • Stjórnun – hæfileikar þínir sem rekstraraðila, þar á meðal hæfileikar þínir til að stjórna.
  • Hversu lífvænleg er viðskiptahugmynd þín – markaðurinn fyrir hugmynd þína eða þjónustu, kostnaður við reksturinn og fjárhagsáætlanir þínar.
  • Áhætta – áhættan sem bankinn tekur í því að fá ekki peninga sína til baka. Hafðu í huga að ef vel gengur deilir bankinn ekki ágóðanum með þér en hann getur tapað ef illa gengur. Í hugum bankamanna er allur nýr rekstur áhættusamur. Vegna þessa vill bankinn tryggja sig sem best áður en hann lánar peninga og er þar fyrst og fremst horft til tveggja hluta, hlutafjár og veðs.

Svanni er lánatryggingarsjóður kvenna sem veitir veitir lánatryggingar til fyrirtækja í eigu kvenna og er hann í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu. Eingöngu fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta sótt um lán og lánatryggingu.  

Arion banki , Íslandsbanki og Landsbankinn bjóða allir fyrirtækjum fjölbreytta þjónustu og ýmsa möguleika í fjármögnun.