Fjárfestar

Fjárfestar vilja gjarnan sjá áætlanir um það hvernig þeirri fjárfestingu verður varið, áður en þeir fjárfesta í arðsemidrifnum fyrirtækjum. Í hvað verður fjármunum varið, hvernig aðgerðir munu stuðla að vexti fyrirtækisins, hver er áætluð arðsemi af fjárfestingunni og hver er útgönguleið fjárfesta.

Áður en þú og hugsanlegir fjárfestar taka fjárhagslega áhættu, er mikilvægt að þú getir sýnt fram á áætlanir þínar og að þær séu vel ígrundaðar, auk þess að þú getir brugðist við þeim vanda sem kann að koma upp. Vel unnin viðskiptaáætlun svarar flestum þessum spurningum og skapar traust fjárfesta í þinn garð. Einnig þurfa að fylgja áætlanir um hver hlutur fjárfesta verður í fyrirtækinu fyrir tiltekna fjárfestingu.

Englafjárfestar

Englafjárfestar eru fjársterkir einstaklingar sem vilja fjárfesta í nýjum verkefnum. Algengt er að verkefnin séu á sviði sem fjárfestinn hefur mikla trú, áhuga og töluverða þekkingu á. Englafárfestar koma oft að verkefnum snemma í þróunarferlinu og aðstoða frumkvöðul við að vinna að verkefninu.

Þegar englafjárfestir kemur inn í fyrirtækið er gott að hafa í huga hvort fjárfestingin komi með eitthvað meira en fjármagn inn í reksturinn. Horfa þarf til þess hvort að englafjárfestinn hafi þekkingu eða viðskiptatengingar sem muni gagnast fyrirtækinu. Fjármagn eitt og sér er yfirleitt ekki það verðmætasta sem englafjárfestir kemur með inn í fyrirtækið. Englafjárfestar fjárfesta í fólki sem þeir hafa trú á og horfa til þess hversu trúverðugt teymið á bak við viðskiptahugmyndina er.

Yfirleitt nálgast frumkvöðlar ekki englafjárfesta eftir hefðbundnum leiðum, líkt og gert er með styrktarsjóði, bankalán og í fjárfestingasjóðum. Oft er englafjárfestirinn einhver sem frumkvöðullinn þekkir eða er komið í samband við hann í gegnum persónulegt tenglanet. Skoðaðu tengslanet þitt vel og athugaður hvort að það gæti leynst englafjárfestir innan þess. Margir kynnast fjárfestum á viðburðum sem tengjast á einhvern hátt verkefnunum sem unnið er að, til dæmis ársfundum, frumkvöðlaviðburðum o.s.frv. Þá er mikilvægt að vera búinn að æfa örkynninguna og vera vel undirbúinn ef þú hittir fjárfesta sem gæti hugsanlega fjárfest í þínu verkefni.

Fjárfestingasjóðir

Fjárfestingasjóðir vilja yfirleitt fjárfesta töluverðum fjárhæðum í hverju sprotafyrirtæki og eignast töluverðan hlut í hverju fyrirtæki. Sjóðirnir horfa yfirleitt til þess hversu líklegur reksturinn er að verða arðbær og fjárfesta aðeins í fyrirtækjum sem hafa sýnt fram á rekstrarmöguleika og jafnvel þau sem hafa þegar fengið minni fjárfestingar og/eða styrki. 

Hér fyrir neðan er listi yfir fjárfestingasjóði. Athugið að þessi listi er ekki tæmandi en getur gefið vísbendingar um hvar hægt er að leita fjármögnunar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem fjárfestir í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þar sem vænta má mikils virðisauka og arðsemi af starfseminni og góðrar ávöxtunar. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leggur áherslu á að vinna með öðrum innlendum og erlendum fjárfestum og tekur þátt í sjóðasjóðum til eflingar á áhættufjárfestingum í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum innanlands og utan.

Eyrir invest / Eyrir sprotar er alþjóðlegt fjárfestingarfyrirtækis sem fjárfestir í efnilegum iðnfyrirtækjum sem stefna á að vera leiðandi á alþjóðamarkaði.

Frumtak II hóf starfsemi í febrúar 2015. Sjóðurinn byggir á reynslunni af Frumtak slhf. Sjóðurinn hefur að markmiði að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og eru vænleg til vaxtar og útrásar. Frumtak II fjárfestir á Íslandi en er heimilt að fjárfesta erlendis að því marki sem lög leyfa og nauðsynlegt er vegna útrásar eða markaðssóknar fyrirtækja í eigu Frumtaks II á erlenda markaði.

SA Framtak / Brunnur vaxtasjóður er fjárfestingasjóður sem veitir nýsköpunarfyrirtækjum aðstoð við fjármögnun. Sjóðurinn fjárfestir í íslenskum nýsköpunar- og vaxtafyrirtækjum sem selja eða stefna á að selja vörur eða þjónustu á erlenda markaði.

Thule investment annast rekstur og umsýslu fagfjárfestasjóðanna Brú Venture Capital og Brú II Venture Capital Fund S.C.A. SICAR. Fjárfest er í fyrirtækjum sem hafa þróað vöru eða þjónustu sem er tilbúin til markaðsetningar og hafa möguleika á að nýta fjármuni til þess að vaxa hratt.

Virðing er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki. Tilgangur þess er rekstur innlendra og erlendra verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða.


Er rekstaráætlunin klár?