Grebe

Sérfræðiráðgjöf til fyrirtækja og frumkvöðla í endurnýjanlegri orku

 GREBE_logo

GREBE (Generating Renewable Energy Business Enterprise) er samstarfsverkefni Írlands, Norður-Írlands, Finnlands, Noregs og Íslands um áskoranir og tækifæri í sjálfbærri orkuframleiðslu á norðlægum svæðum þar sem aðstæður geta verið erfiðar.

Markmið GREBE er að þróa og miðla stuðningi til fyrirtækja í endurnýjanlegri orku og gera greinina lífvænni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á norðlægum slóðum.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er íslenski þátttakandinn í verkefninu.

Um sérfræðiráðgjöf GREBE

Hluti af verkefninu er að þróa ráðgjafaraðstoð (Entrepreneur Enabler Scheme)  til fyrirtækja og frumkvöðla á vettvangi endurnýjanlegrar orku með það að markmiði að hvetja þau til áframhaldandi vaxtar með viðeigandi sérfræðiráðgjöf.

Umsókn í sérfræðiráðgjöf GREBE

Lítil og meðalstór fyrirtæki og frumkvöðlar sem starfa í endurnýjanlega orkugeiranum eiga kost á ráðgjöf sérfræðinga utan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í 10 skipti til að auka við þekkingu á atriðum sem stuðla að vexti, fjölgun starfa og aukinni samkeppnishæfni. Ráðgjöfin getur snúið að fjármálum, mannauðsmálum, sölu og markaðssetningu.

Umsækjendur fylla inn umsóknareyðublað sem er aðgengilegt á vefsíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. 

Hafi umsækjandi ekki sótt um á þessari vefsíðu áður þarf að stofan aðgang sem er einfalt og aðgengilegt ferli. 

Umsóknareyðublöðum skal skilað inn fyrir 2. febrúar 2018. Matsnefnd á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands metur umsóknir út frá fjölmörgum þáttum, svo sem stærð og fjárhagsstöðu fyrirtækis, eðli verkefnis, þörf fyrir ráðgjöf og væntanlegum árangri og velur úr þrjú fyrirtæki eða frumkvöðla sem falla best að markmiðum verkefnis.

Umsækjendur fá svarbréf í tölvupósti. Í bréfinu kemur fram hvort unnt er að verða við umsókninni, til hvers styrkurinn er veittur og hvað styrkurinn er hár.

Verkefnið er unnið af ráðgjafa fyrirtækisins og starfsmönnum þess. Hlutverk verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands gagnvart þátttökufyrirtækjum er eftirfarandi:

  • Tekur við umsóknum og samþykkir val á ráðgjafa.
  • Gera samning og aðstoðar við gerð verkáætlunar ásamt ráðgjafa og fulltrúa fyrirtækis.
  • Hafa eftirlit með að framkvæmd verkefna sé í samræmi við áætlanir.
  • Greiða þátttökuaðilum styrk eftir framvindu verkefna.

Vinna verkefnisstjóra er fyrirtækjum að kostnaðarlausu. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki innan 5 mánaða.

Framvinda og verkþættir

Fyrirtæki sem fær loforð um styrk, velur ráðgjafa sem nýtist fyrirtækinu best. Ráðgjafarnir geta komið víða að og eru ekki á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar íslands þarf þó að samþykkja þann ráðgjafa sem fyrirtækið velur. 

Valdir þátttakendur fá hver um sig 8 fundi með ráðgjafa að eigin vali.

Þegar ráðgjafi hefur verið valinn, hefst undirbúningsvinna sem verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar leiðir. Byrjað er á að gera verkáætlun og samning um verkefnið milli Nýsköpunarmiðstöðvar, fyrirtækisins og ráðgjafans.  Að undirritun lokinni hefst hin eiginlega ráðgjafarvinna.  

Ráðgjafi leiðir ráðgjafarvinnuna en í nánu samstarfi við fyrirtækið eða frumkvöðulinn. Ritaðar eru fundargerðir og minnisblöð, en skrif á skýrslum eru lágmörkuð. Verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar fylgist með framgangi og veitir aðstoð og upplýsingar eftir þörfum.

Styrkurinn er greiddur út í 1-3 hlutum eftir framgangi verkefnisins. Áður en styrkir eru greiddir sendir fyrirtækið verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands reikninga frá ráðgjafa, stutta framvinduskýrslu og önnur gögn sem sýna þróun vinnunnar og árangur.