Klasar

Hugmyndafræði klasa hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og hefur hugtakið klasi (e. cluster) verið mikið notað víðsvegar um heiminn sem kjarni í umfjöllun um nýsköpun, atvinnuþróun og samkeppnishæfni svæða. Allt frá útgáfu Michael Porter, prófessors við Harvard Háskóla, á bókinni ,,The competitive advantage of nations” sem kom fyrst út árið 1990, hefur klasahugtakið hlotið mikinn meðbyr og vinsældir þess aukist til muna. Þar sem byggt er á traustum fræðagrunni og hagnýtri reynslu úr atvinnu­lífi hefur ávinningur af starfsemi svæðisbundinna klasa orðið sífellt augljósari og í auknum mæli hefur verið fylgst með þróun, einkennum og árangri starfandi klasa víða um heim.  Í kjölfar alþjóðavæðingar er ljóst að landsvæði standa í samkeppni við önnur svæði, ekki bara í eigin landi heldur við svæði víðs vegar um heiminn. Samkeppnin gengur út á að skapa aðstöðu til viðskipta sem byggir á vinnuafli, tækni og þekkingu og ekki síst að skapa umhverfi til nýsköpunar. Einstök svæði þurfa því að skilja og skilgreina sérstöðu sína, vera tilbúin og hafa þor til að taka af skarið og skapa slíkt umhverfi. Þar sem slík vinna hefur verið unnin hefur skapast tengslanet og samstarf fyrirtækja og stofnana sem nefnt hefur verið klasar.

Michael E. Porter skilgreinir klasa sem „landfræðilega þyrpingu tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana ... á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni en einnig í samvinnu“.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur gefið út Klasahandbók sem er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir alla sem hafa í hyggju að efla klasa og koma á fót klasatengdum verkefnum. Tekið skal fram að til eru fleiri aðferðir við klasaþróun og stjórnun klasa en þær sem vikið er að í þessu riti. Handbókina má nálgast frítt í vefverslun Nýsköpunarmiðstöðvar og í verkfærakistu hér efst á síðunni. Einnig er að finna ýmis verkfæri fyrir klasastjóra í verkfærakistunni. 

Allar frekari upplýsingar um klasa og stjórnun klasa gefur Dr. Hannes Ottósson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í síma 522 9247 og á netfanginu hannes@nmi.is.