Einkaleyfi og hugverkavernd

Áður en farið er að kynna nýja vöru eða þjónustu þarf að athuga hvort hægt sé að vernda sig gegn eftirlíkingum annarra og hvort slíkt svari kostnaði. Hér getur vernd hugverkaréttinda af einhverju tagi átt við. Með hugverkaréttindum er t.d. átt við einkaleyfi fyrir tæknilegri uppfinningu, vernd á hönnun eða vörumerkjavernd. Til að njóta verndar af þessu tagi þarf í langflestum tilfellum að sækja um skráningu.

Á Íslandi er það Einkaleyfastofa sem annast þessa skráningu. Þar er hægt að fá leiðbeiningar um það hvernig skráning gengur fyrir sig og umsóknareyðublöð. Einkaleyfastofan veitir jafnframt einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í atvinnulífi. Impra á Nýsköpunarmiðstöð rekur upplýsingasetur um einkaleyfi og þangað geta frumkvöðlar sótt aðstoð sér að kostnaðarlausu.

Nauðsynlegt er í flestum tilvikum að leita ráðgjafar eða sérfræðiaðstoðar þegar sótt er um einkaleyfi því gerðar eru miklar kröfur um frágang umsóknar. Nokkrir lögmenn hafa sérhæft sig í gerð slíkra umsókna.

Fengið einkaleyfi er heldur alls ekki ávísun á verðmæti, því til að vara sé verðmæt þarf að vera nægilegur markaður fyrir hana, þ.e. það þarf að vera tilbúinn nægilega stór hópur kaupenda sem eru tilbúnir að greiða fyrir vöruna á þeim tíma sem hún kemur fram. Réttindin sem fylgja einkaleyfi eru hins vegar mjög skýr, þannig að þú getur selt eða leigt réttindin, finnist áhugaverður kaupandi. Þrátt fyrir að ferillinn við að fá einkaleyfi sé dýr, er best að fá fagfólk til að aðstoða í vinnuferlinu, bæði leitinni og við skrásetningu hugmyndar, því sé grunnvinnan ekki nægilega góð kann því fé sem lagt er í ferlið að vera kastað á glæ.

Leyndarsamningur

Oft er gerður svokallaður leyndarsamningur milli hugvitsmanns og þess aðila sem hann kynnir hugvit sitt fyrir, til að tryggja stöðu sína.  Leyndarsamningur verður ávallt að vera skriflegur, þannig að aldrei þurfi að reiða sig á munnlegt samkomulag, eða svokallað "heiðursmannasamkomulag". Þetta getur gert samstarfið og samningaviðræðurnar stirðari, en er nauðsynlegt til að gæta réttinda þinna sem kostur er.

Mundu að leyndarsamninginn þarf að kynna og undirrita áður en þú kynnir uppfinninguna þína. Lofaðu mótaðilanum að lesa drög að samningum áður en þið hittist og gera athugasemdir. Menn eru jákvæðari að skrifa undir gögn sem þeir hafa fengið að lesa og ígrunda vel áður en að undirritun kemur. Það er mikilvægt að báðir aðilar átti sig á því hvað það er nákvæmlega í upplýsingunum um uppfinninguna sem leyndin hvílir á.

Gott er að hafa í huga að þú gefur munnlegar viðbótarupplýsingar til fyrirtækisins þá gildir leyndarsamningurinn ekki um þær, nema þið gerið með ykkur samkomulag um það sérstaklega, með fundargerð sem báðir aðilar gangast undir leynd á.

Nánari upplýsingar

Hannes Ottósson, verkefnisstjóri, veitir allar frekari upplýsingar og aðstoð í síma 522 9247 eða á netfanginu hannes@nmi.is.