Fjárhagsáætlanir/reiknilíkön

Fjárhagslegur grundvöllur er mikilvæg forsenda þess að viðskiptahugmynd komist á framkvæmdastig. Það skiptir máli að vanda gerð markaðsgreininga og söluáætlana til að fjárhagsáætlanir verði raunhæfar.

Fjárhagsáætlanir samanstanda annars vegar af tekju- og kostnaðaráætlun sem er rekstraráætlun fyrirtækisins og hins vegar af áætlun um inn- og útborganir sem er greiðsluáætlun fyrirtækisins.

Í rekstraráætlun þarf að setja niður hvernig gjöld greiðast úr fyrirtækinu og hvernig tekjur koma inn. Rekstraráætlun ætti í flestum tilfellum að ná til að lágmarki 3ja ára. Hún sýnir áform um þróun starfsseminnar og endurspeglar áður framsett markmið og söluáætlun.  

Ef um nýtt fyrirtæki er að ræða eru ekki til neinar tölur úr rekstri til að byggja á og þarf því að setja fram forsendur að áætlunum en út frá þeim eru niðurstöður fengnar. Dæmi um forsendur eru t.d. sala, fjöldi starfsmanna, laun þeirra, vaxtastig lána og svo framvegis.

Stofnkostnaðaráætlun

Mikilvægt er að stilla upp stofnkostnaðaráætlun áður en farið er af stað í fyrirtækjarekstur.  Nauðsynlegt er að átta sig á því hvað það kostar að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og hvernig brúa má bilið þar til reksturinn fer að skila tekjum. Stofnkostnaðaráætlun snýst um að lista upp þann kostnað sem fellur á fyrstu stigum og fer sá kostnaður eftir því hver viðskiptahugmyndin er.

Algengir kostnaðarliðir eru hér eftirfarandi en athugið að listinn er ekki tæmandi:

  • Undirbúningskostnaður - gerð viðskiptaáætlana, prófanir, öflun markaðsupplýsinga, leit að fjárfestum og/eða samstarfsaðilum
  • Þróunarkostnaður - sá kostnaður sem felst í því að koma vöru eða þjónustu í söluhæft form
  • Tæki og búnaður - hér er um að ræða hvers kyns tæki og búnaður sem nauðsynlegt er að fjárfesta í þannig að starfssemi geti hafist
  • Húsnæði og innréttingar - huga þarf að standsetningu húsnæðis, vinnu iðnaðarmanna, innréttingum, merkingum og leigu húsnæðis
  • Markaðskostnaður - hér er átt við þá þætti markaðsáætlunar sem snúa að gerð vörumerkis, umbúða, bæklinga, nafnspjalda og öðru kynningarefni sem þarf til áður en farið er af stað
  • Skráningar- og leyfisgjöld - ýmis kostnaður fylgir skráningu fyrirtækja og öflun leyfa (fer eftir starfssemi)
  • Ýmis sérfræðikostnaður - til dæmis þjónustu lögfræðinga, endurskoðenda og  tölvuþjónustu

Reiknilíkön

Hér á síðunni má finna ýmis reiknilíkön sem hægt er að hlaða niður og nota við áætlanagerð.  Ef þú þarft aðstoð eða leiðbeiningar um notkun líkana hafðu þá samband við Sigurð Steingrímsson verkefnisstjóra í síma 522 9435 eða á netfangið sigurdurs@nmi.is    

Leiðbeiningar

  • Til að geta unnið með líkönin þarf að byrja á því að smella á „Enable Editing“ hnappinn sem birtis á gula borðann efst á Excel skjalinu.
  • Nauðsynlegt er að vista skjalið niður á eigin tölvu.  
  • Í líkönunum eru notaðir fjölvar (macros).  Því er nauðsynlegt að velja Enable macros þegar skjölin eru opnuð. Ef skjalið opnast ekki eða villuboð koma upp er það í flestum tilfellum vegna þess að Excel er læst fyrir notkun fjölva.  Því er breytt með stillingum í Excel, með því að fara í FileOptionsTrust Center. Smella á Trust Center Settings og Macro Settings. Haka í Trust access to the VBA.