Stofnkostnaðaráætlun

Mikilvægt er að stilla upp stofnkostnaðaráætlun áður en farið er af stað í fyrirtækjarekstur.  Nauðsynlegt er að átta sig á því hvað það kostar að hrinda hugmynd í framkvæmd og  hvernig brúa skal bilið þar til reksturinn fer að skila tekjum.  Stofnkostnaðaráætlun snýst um að lista upp þann kostnað sem fellur á fyrstu stigum og fer sá kostnaður eftir því hver viðskiptahugmyndin er.

Algengir kostnaðarliðir eru hér eftirfarandi en athugið að listinn er ekki tæmandi:

  • Undirbúningskostnaður - gerð viðskiptaáætlana, prófanir, öflun markaðsupplýsinga, leit að fjárfestum og/eða samstarfsaðilum
  • Þróunarkostnaður - sá kostnaður sem felst í því að koma vöru eða þjónustu í söluhæft form.
  • Tæki og búnaður - hér er um að ræða hvers kyns tæki og búnaður sem nauðsynlegt er að fjárfesta í þannig að starfssemi geti hafist.
  • Húsnæði og innréttingar - huga þarf að standsetningu húsnæðis, vinna iðnaðarmanna, innréttingar, merkingar og leiga húsnæðis.
  • Markaðskostnaður - hér er átt við þá þætti markaðsáætlunar sem snúa að gerð vörumerkis, umbúða, bæklinga, nafnspjalda og öðru kynningarefni sem þarf til áður en farið er af stað.
  • Skráningar - og leyfisgjöld - ýmis kostnaður fylgir skráningu fyrirtækja og öflun leyfa (fer eftir starfssemi).
  • Ýmis sérfræðikostnaður - til dæmis má hér nefna lögfræðinga, endurskoðendur og  tölvuþjónustu.