Rannsóknastofa

Verkefni rannsóknastofu eru tvíþætt; þjónustuverkefni annarsvegar og verklegur hluti rannsóknaverkefna hinsvegar. Á rannsóknastofu fara fram prófanir á ýmsum byggingarefnum. Aðallega er um að ræða prófanir á sviði húsbyggingatækni, vegtækni, steinsteyputækni og jarðfræði/jarðtækni. Innan húsbyggingatækni er einnig stórt sérrými fyrir hljóðmælingar.

Mikið er um að prófanir séu staðlaðar og framkvæmdar með sérbyggðum tækjum, en einnig er töluvert um óstöðluð próf. Óstöðluð próf krefjast sérundirbúnings og uppstillingar í hvert sinn og eru ýmis álagspróf algengust. Hér er átt við álagspróf á t.d. festingum, húseiningum og öðrum sérsmíðuðum hlutum. Staðlaðar prófanir eru helst framkvæmdar á jarðefnum, steinsteypu, malbiki, steypustyrktarstáli, stálfestingum, einangrun og gluggum.

Þó flestar prófanir fari fram innandyra á rannsóknastofu, er nokkuð um mælingar og prófanir á byggingarstað. Má þar helst nefna rakamælingar og mælingar á þéttleika húsa, töku sýna úr steinsteypu, malbiki og öðrum byggingarefnum ásamt hvers konar ástandsmati mannvirkja.

Malbikunarsetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Með tilkomu nýrra rannsóknatækja var sérstakt malbikunarsetur sett á laggirnar til að mæla aflögun og slit á malbiki. Setrið hefur yfir að ráða tækjabúnaði sem uppfyllir Evrópustaðla um prófanir og framleiðslu malbiks. Nánari upplýsingar um setrið er að finna hér