Gæði innilofts

Mannvirkjasvið hefur um árabil sinnt rannsóknum á orkuþörf bygginga, endingu byggingarefna og viðhaldsþörf, svo og byggingareðlisfræði; einkum hitaástandi og raka í byggingum og byggingarefnum.  Nú er vaxandi áhersla alþjóðlega á nauðsyn þess að lagt sé heilstætt mat á umhverfisáhrif bygginga og orkuþörf, auk notagildis bygginga og gæða innilofts.

Hérlendis er sérstaða í orkumálum umtalsverð þar sem orka sem notuð er í byggingum er nánast alfarið mjög umhverfisvæn. Tengt framleiðslu efna er iðulega talsverð orkunotkun og flutningur efna, m.a. byggingarefna, er um langan veg þegar flytja þarf efnin inn og orkunotkun vegna flutninga er langt í frá umhverfisvæn. Það er því þrátt fyrir allt áhugavert að skoða orkumál tengd byggingariðnaði fyrir innlendan markað og enn frekar á erlendum vettvangi til að auka samkeppnisstöðu íslenskrar hönnunar og iðnaðar.

Efnagjöf vegna niðurbrots efna og örveruvöxtur, s.s sveppavöxtur, hefur áhrif á gæði innilofts og hollustu.  Erlendis hafa óheppileg áhrif sveppavaxtar á inniloft verið í umræðunni um talsvert skeið, en hérlendis verið talið að slík vandamál væru lítil, þó svo áður fyrr hafi óheppileg áhrif sveppavaxtar í híbýlum verið vel þekkt.  Beint samband er talið vera milli raka og ýmissa þátta er hafa áhrif á gæði innilofts, s.s. sveppavaxtar (WHO, 2009), og þekkt að rakavandamál eru til staðar í íslenskum byggingum í svipuðu umfangi og þekkist víða erlendis, eða í 25-30% bygginga (WHO, 2009, Björn Marteinsson o.fl., 1999, 2010). Nú fer umræða um óhollustu í innilofti hérlendis vaxandi og nauðsynlegt að skoða umfang þessa og greina orsakir vandans. 

Mannvirkjadeildin hyggst leggja aukna áherslu á rannsóknir á sviði umhverfisáhrifa, hollustu og gæða innilofts.

Tilvísanir:

  • World Health Organisation (2009) WHO Guidelines for indoor air quality: Dampness and mould, ISBN 978 92 890 4168 3
  • Benedikt Jónsson og Björn Marteinsson (1999) Viðhaldsþörf húsa á Íslandi, sérrit 77, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins
  • Björn Marteinsson (2010) “Þök og þakvandamál” kynning á fræðslufundi Verkfræðingafélags Íslands, 29. apríl, 2010 í Verkfræðingahúsinu