Málun utanhúss

Málun og tengd verk eru í flokki tíðustu viðhaldsaðgerða á húsum og öðrum mannvirkjum að utan. Í RB-blöðunum, sem fjallað er um hér að neðan, er að finna mjög hagnýtar og ýtarlegar upplýsingar og leiðbeiningar um efni og vinnubrögð sem lúta að öllum helstu gerðum yfirborðsflata sem koma fyrir utanhúss hér á landi. Í þeim er m.a. að finna kerfislýsingar sem eru aðallega ætlaðar til nánari útfærslu sem verklýsingar, sem síðan má nota til tilboðsöflunar, til að vinna eftir og við eftirlitsstarf.

RB-blöð um málun utanhúss og tengda verkþætti

Markmiðið með blöðunum er að koma á framfæri undirstöðuþekkingu, sem nota má til að bæta árangur við notkun yfirborðsefna á alla helstu fleti sem koma fyrir utanhúss, hvort sem er vegna viðhalds eða frágangs nýrra bygginga. Í þessu felst að láta í té leiðbeiningar um val efna og efnakerfa við algengar aðstæður og að upplýsa um ýmis mikilvæg skilyrði er lúta að vinnubrögðum eða verkþáttum. Blöðin eru ætluð iðnaðarmönnum og almennt eigendum mannvirkja, sem mála skal eða inndreypa að utan, sem og hönnuðum við gerð kerfis- og verklýsinga og við eftirlitsstörf.

Um er að ræða þrjú blöð fyrir hverja megingerð yfirborðsflata, sem eru steinfletir, viðarfletir og málm- og plastfletir. Blöðin nr. 1, Almennar leiðbeiningar, hafa að geyma ýmsar upplýsingar, sem mikilvægar eru við að velja á milli yfirborðsefnakerfa og við að kveða nánar á um kerfin og ýmislegt sem snertir verkþætti. Blöðin nr. 2, Flokkun og kerfislýsingar, eru ætluð til þess að velja kerfi yfirborðsefna eftir gerðum flata, sem þar eru skilgreindir og flokkaðir. Kerfislýsingarnar eru undirstaða verklýsinga þar sem nánar er kveðið á um útfærslu. Blöðin nr. 3, Markaðsyfirlit, eru vel skilgreindar og skipulegar upplýsingar sem framleiðendur og innflytjendur hafa óskað eftir að fá skráðar um sín efni, sem eru tilgreind með réttum vöruheitum eftir flokkum sem vísað er til í kerfislýsingunum í blöðunum nr. 2.