Sprungur í steinveggjum

Sprungur í steinsteypu er algengt fyrirbæri, sem erfitt er að komast hjá við hönnun og byggingu. Þar eð stærstur hluti húsa hér á landi er steyptur er raunin eðlilega sú að sprungur séu taldar vera mikið vandamál þegar að viðhaldi kemur og að "sprunguviðgerðir" séu hugtak sem er títt í umræðunni. Í þessu sambandi er talsverður misskilningur á ferðinni, eins og rannsóknir hafa leitt í ljós. Nær er að tala um aðgerðir gegn sprunguvandamálum fremur en viðgerðir á sprungum, svo sem það að saga upp rauf og fylla með múrblöndu, eins og nokkuð algengt er, en segja má að slíkt eigi engan rétt á sér. Í langflestum tilvikum má þétta sprungur gegn upptöku vatns með vatnsfælu og að láta þær hverfa allvaranlega, um leið og þær eru þéttar, með því að bletta yfir þær með sérstakri málningu, sem verður að þykkri teygjanlegri húð, sbr. RB-blöðin "Yfirborðsefni fyrir steinfleti utanhúss". Aðgerðir við sprungum eru því í raun hluti af málaravinnu.

Óhætt er að fullyrða að í fæstum tilvikum leki inn í hús í gegnum sprungur í steypu og að flestar sprungur sem slíkar séu skaðlausar að öðru leyti en því að vera lýti, ef þær sjást þá áberandi á annað borð. Víst er að regnvatn kemst ekki inn um ytra byrði húsa nema fyrir hendi sé í það minnsta einhver glufa, sem vatn getur lekið inn um. Algengt er reyndar að leki inn í hús sé út frá gluggum. Oft er sprungum í steini kennt um, en lekasprungur er yfirleitt auðvelt að koma auga á og þétta. Svo virðist sem nokkuð algengt sé að klæða heila gafla og húshliðar vegna leka. Hlýtur slíkt að teljast dýr lausn þegar ekki þarf annað en einfaldlega að fara rétt að við að þétta glufur.

RB-blöð um sprungur í útveggjum steinhúsa

Markmiðið með blöðunum er að koma á framfæri undirstöðuþekkingu, sem felst í niðurstöðum rannsókna og reynslu sem nota má til að bæta árangur við aðgerðir gegn sprunguvandamálum. Blöðin eru ætluð iðnaðarmönnum og almennt eigendum mannvirkja úr steini, sem og hönnuðum og öðrum sérfræðingum við gerð verklýsinga og við eftirlitsstörf.

Um er að ræða tvö blöð, sem bæði hafa titilinn Sprungur í útveggjum steinhúsa og fjallar fyrra blaðið um hreyfingar sprungna og virkni vatnsfælna gegn leka en hið síðara um þéttingu með vatnsfælum og fyllingu með innþrýstitækni.