Markaðsstefna

Þegar fyrirtæki hefur skilgreint hvaða markað verði stefnt á og markmið hafa verið sett, þarf að taka afstöðu til þess hvernig á að standa að markaðssetningu til að ná settum markmiðum. Til að ná sem mestri yfirsýn er oft notaðir hinir fjórir söluráðar, vörustefna, verðstefna, dreifingarstefna, auglýsinga og kynningarstefna.

Vara/þjónusta

Móta þarf stefnu fyrir vöruna, t.d. markhóp, ímynd, vörumerki o.s.frv. og setja markmið um árangur í sölu hennar.  Mögulega þarf að aðlaga vöruna þannig að hún falli sem best að þörfum markhóps, s.s. umbúðir, ábyrgð, gæði o.þ.h.

Verð

Út frá hverju er verð vörunnar fundið? Er það út frá verði samkeppnisaðila, út frá kostnaði sem fellur til við framleiðslu og/eða umsýslu hennar, eða út frá því hvað viðskiptavinurinn er tilbúinn til að borga? Verður verðlagning mismunandi eftir árstíðum? Á að bjóða ákveðnum hópum sérkjör? Greiðsluskilmálar: Hvernig verður greitt fyrir vöruna?

Dreifing

Hvernig verður vörunni dreift til viðskiptavina? Ætlar fyrirtækið að selja beint til viðskiptavina, gegnum smásala (verslanir), eða í gegnum aðra milliliði? Er varan e.t.v. eingöngu seld á netinu? Ef fyrirtækið ætlar að selja beint til viðskiptavina er mikilvægt að horfa vel til staðsetningar fyrirtækisins og hvernig hún passar viðskiptavinum.

Auglýsinga – og kynningarstefna fyrirtækisins

Útbúa þarf kynningarstefnu fyrir vöruna og setja markmið um árangur. Í þessu sambandi þarf að huga að því á hvern hátt upplýsingum er best komið til markhópsins. Ákveða þarf hvaða miðlar verði nýttir í þessu sambandi, t.d. dagblöð, sjónvarp, tímarit eða Internet? Hvaða leiðir verða nýttar til að ná til viðskiptavina (auglýsingar, markpóstur, heimasíða, samfélagsmiðlar, bein samskipti mann á mann, o.s.frv.) Þegar kemur að auglýsingum á samfélagsmiðlum er aðalatriði að þær séu meira um að auka virði áhorfandans heldur en að selja þeim eitthvað og því þarf að skoða efnistök, útlit þess, skilaboð, lengd, hönnun og staðsetningu.

Samfélagsmiðlar eru gerðir fyrir viðeigandi efni sem vert er að skoða, gera athugasemdir við og deila með öðrum. Þess vegna er mikilvægt fyrir fyrirtæki að kynna sér það umhverfi vel. Hér verður farið yfir nokkur góð ráð varðandi efnisframleiðslu og helstu samfélagsmiðlar og hlutverk þeirra skoðuð. Vinsamlega athugið að hér er ekki um tæmandi samantekt að ræða heldur aðeins fljótlega leið til að ná yfirsýn.

Flestir sem reka fyrirtæki gera sér grein fyrir að notkun samfélagsmiðla getur verið ein áhrifaríkasta og fljótlegasta leiðin til að ná athygli viðskiptavina.  Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hér er um að ræða hluta af heildarmarkaðssetningu fyrirtækisins og þarf því að byggja á sömu gildum og við aðrar markaðsaðgerðir fyrirtækisins.

Gott að hafa á hreinu áður en farið er af stað:

Hver er markhópurinn:  Hvar er markhópurinn? Hvaða miðla nýtir hann? Um hvað ræðir hann? Hvað grípur athygli hans?

Hver eru markmið með notkun samfélagsmiðla: Af hverju er verið að nýta samfélagsmiðla? Hvað græða ykkar viðskiptavinir á því að “læka” á ykkur á samfélagsmiðlum? Hvernig á að mæla og meta árangur?

Hver er stefnan: Hvaða efni? Hver á að annast? Hver á að svara og hvernig? Er tími tekinn frá til að fylgjast með þróun miðlanna?

Hvers konar miðlun?

 

 Mynd leiðir til markaðssetningar, áunnin miðlun eins og umsagnir, kostuð miðlun, eigin miðlanir

 

Fjölmargar leiðir eru til þess að miðla til fólks því sem við viljum bjóða þeim. Þær eru þó misdýrar og tímafrekar.  Í gegnum kostaða miðlun (sjónvarp, útvarp, blöð, vefborða, textaauglýsingar, áhrifavaldar osfrv.) og okkar eigin miðlun (bæklingar, einblöðungar, kynningar, blogg, góð heimasíða) náum við tengslum við viðskiptavini, við myndum tengsl.

Áunnin miðlun þýðir í raun þá miðlun sem við græðum í gegnum trygga notendur, áhrifavalda og samvinnu við önnur vörumerki  sem geta aðstoðað okkur að koma vörumerki okkar á framfæri.

Efnismarkaðssetningin (content marketing) á við allar miðlanir og stundum er slík markaðssetning jafnvel notuð ómeðvitað.

Með góðu efni geta fyrirtæki á ódýran hátt komið sér á einn eða annan hátt inn í umfjöllun og í góða dreifingu á samfélagsmiðlum. T.d. góð saga, fræðandi grein, gildishlaðið blogg, falleg umfjöllun eða afrek fyrirtækisins, fyndin frásögn, heilandi skilaboð og svo mætti lengi telja. Efni sem skiptir máli og er viðskiptavininum einhvers virði.

En til þess að ná til viðskiptavinarins með efni sem við höfum framleitt fyrir tiltekinn markhóp þurfum við að finna rétta vettvanginn til að markaðssetja okkur og fara réttu leiðina í þeirri ferð. En hvaða samfélagsmiðlar henta starfseminni?

Hvaða samfélagsmiðlar henta starfseminni?

Stór hluti íslendinga notar samfélagsmiðla daglega. Yfir 20 þúsund íslenskir notendur nýta Twitter og samkvæmt Facebook eru 220 þúsund notendur þeirra skráðir til heimilis á Íslandi. Fólk undir 30 ára notar samfélagsmiðla að jafnaði í 2-3 klukkustundir á dag og baráttan um athygli neytenda er gríðarleg.

Fyrirtæki þurfa alls ekki að nýta alla miðla til að ná til markhópsins. Velja þarf vandlega, sérstaklega ef um er að ræða smá fyrirtæki með takmarkaðan tíma og fjármagn til að verja í þessa miðlun. Hér fyrir neðan má sjá yfirlitsmynd yfir nokkra helstu samfélagsmiðla, hversu marga notendur þeir hafa, almennt aldursbil, til hvers þeir eru nýttir og galla hvers og eins.

 

 

Gott er að setja aðgerðirnar niður í svokallaða birtingaráætlun en þar er, með skipulögðum hætti, sett niður áætlun um birtingu kynningarefnis, auglýsinga, sýningaþátttöku og annað það sem lýtur að sýnileika fyrirtækisins. Greinargóð birtingaráætlun með tímasetningum og kostnaðaráætlun eykur líkur á árangri í markaðssetningu.

Aðgerða og söluáætlun

Nauðsynlegt er að hafa góða yfirsýn yfir allar aðgerðir sem þarf að fara út í. Setja skal þær aðgerðir upp í töflu sem sýnir hvað, hvenær, hver og hvernig á að framkvæma aðgerðir.